Í erindisbréfi ráðsins kemur fram að vísindastefnan skuli samþykkt af framkvæmdastjórn FSA. Þar segir ennfremur að í upphafi hvers árs skuli vísindaráð gera framkvæmdastjórn sjúkrahússins grein fyrir verkefnum fyrra starfsárs, svo og áætlunum komandi árs. Skuli þetta vera starfsmönnum spítalans aðgengilegt, svo og fundargerðir ráðsins.
Vísindaráð FSA hefur m.a. eftirfarandi hlutverk:
Móta vísindastefnu FSA. Sjá um kynningu á vísindastarfi sem fram fer á spítalanum. Árlega skulu haldnir vísindadagar þar sem markverðar vísindaniðurstöður eru kynntar fyrir starfsfólki spítalans, fræðimönnum og almenningi. Vera til ráðgjafar við veitingu viðurkenninga fyrir vísindastörf á FSA. Vera deild kennslu og vísinda til ráðgjafar um þau verkefni sem snúa að háskóla- og vísindastarfi og þróun heilbrigðisvísinda.
Forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri skipar þrjá fulltrúa í vísindaráð FSA og jafn marga til vara og skulu þeir allir vera starfsmenn sjúkrahússins. Þar af skal einn tilnefndur af læknaráði, annar af hjúkrunarráði og sá þriðji af framkvæmdastjórn. Forstöðumaður deildar kennslu og vísinda situr fundi ráðsins og starfar með því við skipulagningu vísindamála FSA, eftir því sem þurfa þykir. Á ársfundinum voru eftirtaldir skipaðir í fyrsta vísindaráð FSA: Ragnheiður Harpa Arnardóttir, sjúkraþjálfari, formaður, Alexander Kr. Smárason, læknir og Regina B. Þorsteinsson, hjúkrunarfræðingur. Til vara: Gísli Aðalsteinsson, hagfræðingur, Guðjón Kristjánsson, læknir og Gunnhildur H. Gunnlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur.