27. ágúst, 2010 - 11:21
Fréttir
„Mér finnst nú líklegt að við samþykkjum þetta hérna fyrir norðan. Menn sætta sig kannski við þetta þó
þeir séu ekkert endilega sáttir. Það virðist reyndar vera aðeins meiri hiti í mönnum fyrir sunnan heldur en hér,” segir
Ólafur Stefánsson trúnaðarmaður hjá Slökkviliði Akureyrar, en slökkviliðs-og sjúkraflutningamenn funduðu sl. miðvikudagskvöld
um nýjan fjögurra mánaða samning. Kosið verður um samningin um mánaðarmótin. „Við ræddum bara málin og veltum fyrir okkur
kostum og göllum í stöðunni,” segir Ólafur. Hækkunin í nýja samningnum nemur um 2% að meðaltali.
„Þetta er alls ekki það sem menn lögðu af stað með. Það eru eitthver réttindamál í nýja samningnum sem er
verið að leiðrétta frá því í gömlu samningunum og það kemur ekki út sem mikil launahækkun fyrir flesta,” segir
Ólafur. „Ástandið í þjóðfélaginu býður kannski ekkert upp á betri samning. Þetta er náttúrulega bara
fjögurra mánaða samningur og við horfum til þess að vera í samfloti með öðrum stéttarfélögum í kjarabaráttu
þegar samningurinn rennur út 30. nóvember.”