Vilji er allt sem þarf!

Pétur Ólafsson
Pétur Ólafsson

Höfundur: Pétur Ólafsson


 

Hvað sem hver segir er það staðreynd að á mörgum sviðum er áþreifanlegur aðstöðumunur milli höfuðborgarsvæðisins og fólks og fyrirtækja utan þess. Í tækifærisræðum er á þetta minnst og jafnan er um þetta rætt í aðdraganda alþingiskosninga, t.d. heyrði ég frambjóðendur ræða þetta fyrir nýafstaðnar þingkosningar. Fyrir kosningar eru menn, að því er virðist, sammála um að úr þessum hlutum verði að bæta en svo líða fjögur ár og ekkert gerist - og aftur er kosið til Alþingis.

Ísland er borgríki með höfuðborg og höfuðborgarsvæði þar sem býr mun hærra hlutfall fólks af heildaríbúa lands en í nokkru öðru vestrænu ríki. Þetta er umhugsunarvert. Þegar málum er svona háttað er drjúgur hluti þjónustu sem allir landsmenn þurfa á að halda staðsettur á suðvesturhorninu. Sem þýðir að þeir sem fjarri höfuðborginni búa þurfa í mörgum tilfellum að greiða mun meira fyrir þjónustuna en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Á borði mínu sem hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands hafa í gegnum tíðina verið ýmis dæmi um mikinn kostnaðarauka sem á Hafnasamlagið fellur vegna námskeiðshalds fyrir starfsfólk þess í Reykjavík. Oftar en ekki er um að ræða ný námskeið eða endurmenntunarnámskeið sem starfsfólk þarf að fara á að kröfu Samgöngustofu. Þetta eru m.a. námskeið sem krafa er gerð um að starfsmenn sitji vegna lögskráninga á skip og einnig verndarfulltrúanámskeið, vigtarnámskeið o.fl. og nú hefur bæst við nýtt en þarft námskeið sem er fyrir hafnsögumenn. Allir greiða sömu námskeiðsgjöld, óháð því hvar fólk býr, sem þýðir með öðrum orðum að til viðbótar við námskeiðsgjöldin þarf Hafnasamlag Norðurlands að greiða flug/akstur, gistingu og fæði.

Nú stefnir í að Hafnasamlag Norðurlands þurfi að senda alla hafnsögumenn sína á þetta nýja námskeið, þar sem námskeiðsgjaldið fyrir hvern þátttakanda er kr. 185.000. Námskeiðið stendur í 7 daga og þar af er okkar hafnsögumönnum gert að vera í Reykjavík í sex daga. Ég áætla að flugið Ak-Re-Ak kosti 40.000 kr. á mann og til viðbótar er uppihald – gisting og fæði – í sex daga. Í okkar tilfelli hjá Hafnasamlagi Norðurlands áætla ég að viðbótarkostnaður á hvern hafnsögumann, til viðbótar við námskeiðsgjaldið sjálft, sé um 280.000 kr.  

Hér er um stjórnvaldsákvörðun að ræða, opinber stofnun stendur fyrir námskeiðum sem hún skyldar hafnsögumenn Hafnasamlags Norðurlands og annarra hafna út um allt land til þess að sitja í Reykjavík, með tilheyrandi viðbótarkostnaði sem af því hlýst að senda fólk landshluta á milli. Og þetta á síður en svo bara við um hafnir landsins, slíkur viðbótarkostnaður á fyrirtæki á landsbyggðinni vegna námskeiða og funda í Reykjavík er vel þekktur úr öllum geirum atvinnulífsins.

Þetta er hreinn og klár aðstöðumunur milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar sem verður ekki lengur við unað. Það er löngu tímabært að þessir hlutir verði hugsaðir upp á nýtt. Ef vilji stæði til þess væri fjölmargt hægt að leysa með því t.d. að stórauka notkun fjarfundabúnaðar. Löng reynsla er af slíku í skólastofnunum, t.d. Háskólanum á Akureyri, og Covid-heimsfaraldurinn þvingaði atvinnulífið og opinberar stofnanir í auknum mæli inn á þá braut.  Einnig mætti færa hluta námskeiðanna í meira mæli út á land.  Í þessu eins og svo mörgu öðru gildir hið forkveðna; vilji er allt sem þarf!

Höfundur er hafnastjóri Hafnasamlags Norðurlands.


Athugasemdir

Nýjast