Málið var til umfjöllunar á síðasta fundi íþróttaráðs og var eindinu vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Nói Björnsson formaður íþróttaráðs segir að mikill vilji sé innan bæði L-listans og íþróttaráðs að hækka til að byrja með aldur þeirra sem fái niðurgreiðslurnar en að líklega sé ekki fjárhagslegt svigrúm til þess að gera breytingar á næsta ári, það sé þó ekki búið að útiloka það enn.
Á þessu ári er niðurgreiðsla til barna á aldrinum 6-12 ára, 10.000 krónur pr. barn. Um 75% barna hafa skilað inn ávísunum sínum, eða 1.367 börn og er kostnaður bæjarins rúmar 13,6 milljónir króna. Ef aldurinn yrði hækkaður í 14 ár, upphæðin áfram 10.000 pr. barn og skil á ávísunum yrðu 75%, myndu 1.744 börn fá styrk og kostnaður bæjarins yrði þá rúmar 17,4 milljónir króna. Ef aldurinn yrði hækkaður í 16 ár, skil á ávísunum áfram 75%, yrði fjöldinn 2.138 börn og kostnaður bæjarins þá rúmar 21,3 milljónir króna.