Menntaskólinn hefur frá árinu 2001 haft dagskrá í tilefni að evrópska tungumáladeginum og með margvíslegu móti vakið athygli á gildi fjölbreytts tungumálanáms og því jafnframt hversu mörg ólík tungumál nemendur skólans hafa oft á valdi sínu, enda koma þeir víða að. Stundum hafa verið fengnir fyrirlesarar til að fjalla um gildi tungumálakunnáttu og skólanum er mikill heiður að því að frú Vigdís skuli nú þiggja boð um að heimsækja skólann.
Vigdís mun ávarpa nemendur skólans í Kvosinni, Sal MA, klukkan 9.00 og ræða við þá um mikilvægi þess að læra tungumál og hafa þau á valdi sínu. Að því loknu munu hún og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur ræða við nemendur á ferðamálakjörsviði MA, meðal annars um Alþjóðlega tungumálamiðstöð, hugmynd Vigdísar, en söfnun til stofnunar miðstöðvarinnar stendur nú yfir, eins og um var getið í fréttum helgainnar.
Um hádegisbil heimsækir frú Vigdís Háskólann á Akureyri, en þar mun hún í hátíðarsal háskólans ræða við nemendur og starfsfólk HA í tilefni tungumáladagsins. Að því loknu mun hún ásamt fulltrúum Háskólans á Akureyri snæða hádegisverð á 1862 Nordic Bistro í menningarhúsinu Hofi.