Viðtal: Óvissa um þjónustuna hefur aukist og starfsöryggi minnkað

Nokkrir  stjórnendur hjá Öldrunarheimilum Akureyrar sem sagt var upp störfum nýverið hafa hist reglu…
Nokkrir stjórnendur hjá Öldrunarheimilum Akureyrar sem sagt var upp störfum nýverið hafa hist reglulega og takið gott spjall.“ „Við viljum bara gæta hvors annars og styðja og fylgjast að um stund, segir Halldór, en á myndinni eru frá vinstri Helga Guðrún Erlingsdóttir, fv. hjúkrunarforstjóri, Friðný Sigurðardóttir fv. forstöðumaður þjónustusviðs, Halldór S. Guðmundsson fv. framkvæmdastjóri og Karl F. Jónsson fv. forstöðumaður eldhúss. Mynd/mþþ
Mynd og texti: MÞÞ
maggath61@simnet.is

 

„Helstu áhyggjur mínar eru þær að sú alúð og nærvera sem einkennt hefur allt starf Öldrunarheimila Akureyrar, sé í óvissu af því nú eru það ekki bæjarfulltrúar eða slíkir hagaðilar í heimabyggð sem taka þátt í ákvarðanatöku í framtíðinni. Það hefur mögulega orðið ákveðið rof þarna á milli,“ segir Halldór S. Guðmundsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, ÖA.  Halldóri var ásamt fjölda annarra starfsmanna sagt upp störfum á dögunum. Heilsuvernd hjúkrunarheimili tóku við rekstri heimilanna með samningi við Sjúkratryggingar Íslands í vor.

Halldór og aðrir stjórnendur innan ÖA sem sagt var upp á dögunum hittast reglulega og taka gott spjall. „Við erum að þessu sjálfra okkar vegna. Við og aðrir stjórnendur hjá ÖA höfum unnið náið saman í langan tíma og viljum bara gæta hvors annars og styðja og fylgjast að um stund. Þessi morgunhittingur er einn hluti þess og gerir gott þó ekki sé annað en hittast og spjalla,“ segir hann um samverustundirnar.  

 Óvissan hefur aukist

Halldór kveðst hafa áhyggjur af stöðu öldrunarmála á Akureyri í ljósi nýjustu vendinga, uppsagna og breytinga sem fylgja í kjölfarið. „Ég hef áhyggjur af stöðunni og hvert stefnir,“ segir hann. „Með þessu verða breytingar og í raun óvissa um grunnatriðin. Í rúma tvo áratugi hefur ÖA markað sér hugmyndafræðilega stöðu í öldrunarmálum, sinnt samskiptum, þjónustu, miðlað til íbúa, starfsfólks og aðstandenda á Akureyri út frá skýrri sýn um hverjar áherslurnar eru og hvernig framkvæmdar. Óvissan sem núna er ríkjandi er sú að við vitum ekki hvert stefnir og nýjasta útspilið með uppsögnum og fækkun starfsfólks eru ekki til þess fallnar að draga úr óvissunni.“ Þvert á móti telur Halldór að óvissa um þjónustuna hafi aukist og starfsöryggi minnkað því starfsfólkið endurspegli áherslur og traust. „Það er alls ekki gott ef traustið rýrnar því við viljum vita fyrir hvað starfsemin stendur þegar við þurfum á henni að halda fyrir okkar nánustu,“ segir hann.

Breyting sem hlýtur að skerða þjónustuna

Halldór bendir á að í nýlegri skýrslu um rekstur hjúkrunarheimila komi skýrt fram að ÖA hafi búið við sérstöðu í mannafla, fagmönnun og hlutfalli umönnunarklukkustunda. Hvað þessa lykilþætti varðar hafi ÖA verið betur sett en önnur hjúkrunarheimili. „Þjónustan byggir öll á starfsfólki og ef því er fækkað má gera ráð fyrir að þjónusta breytist. Vissulega er nauðsynlegt og eðlilegt að rýna og endurmeta starfsemi, breyta verklagi, nota nýjar aðferðir, nýta tæknilegar lausnir eða hagræða vöktum eftir þörf og álagi. Það hafa stjórnendur ÖA gert á hverju ári með það að leiðarljósi að færa til og nýta mannaflann betur en auka samhliða gæðin í umönnuninni,“ segir Halldór.  „Núna er talað um fækkun starfsfólks sem nemur tugum starfsmanna og að viðmiðin séu mannafli og umönnunarklukkustundir „eins og almennt er hjá öðrum hjúkrunarheimilum,“ eins og það er orðað. Frá mínum sjónarhóli er það breyting sem hlýtur að skerða þjónustuna, enda hefur ÖA fram til þessa gert betur en aðrir.“

Akureyrarmódelið yfirgefið á Akureyri

Að mati Halldór bera bæði ríki og sveitarfélag ábyrgð á því að málefni öldrunarþjónustu á Akureyri er í þessum farvegi. „Þessum stjórnvöldum er ætlað að vinna saman að úrlausn mála og samkvæmt lögum. Það virðist ekki hafa tekist því eftir því sem næst verður komist eru bæði ríki og sveitarfélag ósátt við niðurstöðuna,“ segir hann.  Og bætir við að það sé umhugsunarefni að „Akureyrarmódelið“ hafi verið lagt af og yfirgefið á Akureyri. „Módelið gekk út á að efla og auka verkefni sveitarfélagsins, færa þjónustuna og ákvarðanatöku um hana nær fólkinu á svæðinu og ekki síst að vinna að því að samþætta og samhæfa þjónustu til hagsbóta fyrir notendur.“

Til viðbótar komi aukin hagkvæmni sem liggi í að samþætta þjónustuna. Fyrir liggi að þeim fyrirtækjum sem veita eldra fólki á Akureyri þjónustu hefur fjölgað, ekki fækkað. Framundan sé því ferli sem vafalítið muni taka nokkur ár að smyrja og samhæfa. Ekki síst vegna þess sem á undan er gengið er líklegt að bæjarfélagið muni síður hafa sig í frammi í málefnum aldraðra á næstunni, jafnvel þó það hafi stefnumótandi hlutverk í lögum um málefni aldraðra.

Vorum alltaf að vanda okkur

Halldór segist vera þakklátur og stoltur að hafa verið hluti af Öldrunarheimilum Akureyrar, það hafi verið forréttindi að hafa fengið tækifæri til að starfa með öflugu fólki sem unnið hafi innan heimilanna. Þar hafi einlægur metnaður og áhugi, samvinna, virðing, gleði og hlýja einkennt allt starfið. „Hreint frábær vinnustaður og magnaður starfsandi,“ segir hann. „Þegar ég lýk starfsemi með þessum hætti stendur upp úr að við vorum alltaf að vanda okkur og höfðum hagsmuni íbúanna í öndvegi. Fyrirtækið var leiðandi, skapandi og til fyrirmyndar innanlands og utan á mörgum sviðum. Ég get því verið tilltölulega sáttur þó ég sjái líka eftir öllum þeim tækifærum sem við áttum ónotuð og áhugavert hefði verið að vinna að með samfélaginu.“

Starfað að velferðarmálum í tæpa fjóra áratugi

Halldór hefur um langt skeið starfa við málaflokkinn, byrjaði árið 1982 á Ísafirði og þaðan lá leiðin til Dalvíkur þar sem hann var lengi forstöðumaður Dalbæjar. Hann var við nám í Noregi og vann þar rannsóknar- og lokaverkefni á sviði öldrunarmála. Hann sinnir kennslu við félagsráðgjafadeild HÍ um öldrunarmál. Frá árinu 2013 hefur hann veitt ÖA forstöðu. Þannig að í heild hefur Halldór starfað að málefnum aldraða í 39 ár. „Nú má segja að ég sé á gatnamótum, ljósið er grænt og ýmsar leiðir færar,“ segir hann. Óvíst sé þó nú hvað hann taki sér fyrir hendur, en hann muni líta í kringum sig og skoða hvað hann langi að gera næst. „Ég er ekki viss um hvort ég sé hættur að starfa við velferðarmál og málefni eldra fólks, en kannski er þetta tækifæri til að takast á við eitthvað nýtt,“ segir hann.


Nýjast