Flokksráðið telur brýnt að úttekt verði framkvæmd á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum þeirra sameininga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum. Þá telur flokksráð VG að á tímum efnahagsþrenginga sé sérstaklega mikilvægt að létta byrðar barnafjölskyldna. Menntun barna og þátttaka þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi megi ekki vera háð efnahag foreldra eða tímabundnum þrengingum í samfélaginu. Flokksráð VG hvetur því sveitarfélögin í landinu til að forgangsraða í þágu barnafjölskyldna.
Flokkráðsfundur VG telur sveitarfélög misvel í stakk búin til að veita sjálfsagða og nauðsynlega grunnþjónustu. Á næstu tveimur árum sé m.a. nauðsynlegt að auka framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna um 5 milljarða árlega. Á sama tíma verði gagnger endurskoðun að eiga sér stað á tekjuskiptingu vegna núverandi verkefna og tekjustofnum sveitarfélaga í heild sinni. Sveitarfélögin í landinu þoli enga bið.
Almenningssamgöngur eru ekki einkamál sveitarfélaga, að mati VG. Þau varða umhverfi og efnahag allra landsmanna. Ríkið verði að axla ábyrgð og taka þátt í kostnaði vegna þeirra. Lagasetning í þá veru á að vera forgangsmál á komandi vetri. Flokksráð Vinstri grænna beinir því til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að gæta jafnræðis og veita öllum námsmönnum frítt í strætó óháð lögheimili.