Fram kom í máli Björns að Háskólinn á Akureyri hafi verið aðalstarfsvettvangur starfsmanna Tréverks á síðasta áratug. Þeir komu að hálfnuðu verki við 2. áfanga árið 2001 og luku honum ári seinna. Árið 2003 og 2004 unnu þeir við 3. áfanga skólans og snemma árs 2008 var samið við Tréverk um byggingu 4. áfanga, sem tekin var í notkun sl. laugardag. Björn sagði að margir hefðu átt von á því að framkvæmdir við nýbyggingu HA myndu stöðvast í kjölfar efnahagshrunsins síðla árs 2008.
"Sem betur fer gerðist það ekki og fjöldi norðlenska iðnaðarmanna hefur haft lífsviðurværi sitt af vinnu hér á erfiðum tímum. Fyrir það að halda áfram framkvæmdum hér vil ég þakka ráðamönnum þjóðarinnar sérstaklega. Það sýnir metnað og skilning á að öflugur háskóli á Akureyri sé samfélaginu nauðsynlegur. Um leið vil ég benda ráðherrum og alþingismönnum á að 5. áfangi er kominn á teikniborðið og auðvelt að klára hönnunarvinnu á stuttum tíma og bjóða framkvæmdirnar út á næsta ári. Með því er hægt að stuðla að enn betra skólastarfi og um leið að skapa verkefni fyrir iðnaðarmenn, sem því miður eru margir hverjir án atvinnu í dag og útlit fyrir að þeim fjölgi á næstu árum sem ekkert hafi að gera í iðn sinni. Það er mikil verkþekking til í byggingariðnaði á Eyjafjarðarsvæðinu, bæði til nýframkvæmda og viðhalds eldri húsa, sem ekki má glatast, því verkþekking og reynsla er ekki keypt út í búð," sagði Björn.