„Þetta var fínn fundur og menn sögðu sína skoðun umbúðalaust,” segir Þórgnýr Dýrfjörð hjá Akureyrarstofu. Fundað var í hádeginu sl. fimmtudag þar sem valdir íbúar bæjarins, Akureyrarstofa, forsvarsmenn Bílaklúbbs Akureyrar, lögregla og bæjarstjórn fóru yfir Bíladagshátíðina sem haldin var í bænum á dögunum, en mikil óánægja ríkir meðal margra bæjarbúa vegna óláta og ófriðar sem fylgdu hátíðinni.
„Niðurstaðan er sú að það þarf að ríkja friður um þessa hátíð og reyna að leita leiða til að bæta það sem menn eru ósáttir við. Framkvæmd Bílaklúbbsins er til fyrirmyndar í öllu þessu máli en það er ófriður á götum úti sem þarf að sporna við. Það voru nefndar hugmyndir eins og aukin löggæsla og aukinn áróður til gesta og biðja þá um að taka þátt í því að tryggja langa lífdaga þessarar hátíðar, því í raun er þetta í höndum gestanna,” segir Þórgnýr. Hann segir það ekki vera á döfinni að láta hátíðina niður falla. „Ég held að við tökum þeirri áskorun að halda umræðunni gangandi og tökumst í sameiningu á við þau vandamál sem þarf að leysa. Sá möguleiki var vissulega nefndur en niðurstaðan var sú að reyna aðrar leiðir fyrst,” segir Þórgnýr, sem reiknar með að hópurinn fundi aftur um málið síðar í sumar. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, var einn af bæjarbúunum sem sat fundinn. „Við gerðum grein fyrir því að þetta ástand sem skapaðist á Bíladögum var algjörlega óásættanlegt. Sjálfir Bíladagarnir fóru vel fram en bærinn brann á meðan og því þarf að breyta. Ég held að það hafi orðið sátt um það að það þurfi að horfa á þetta í heild sinni. Okkar afstaða var fyrst og fremst sú að það þarf að tryggja lög og reglu í bænum og öryggi bæjarbúa. Það var t.d. fólk sem hringdi í lögregluna og fékk þau svör að hún réði ekki neitt við neitt og að fólk ætti bara að halda sig innndyra. Það er auðvitað ekki ásættanlegt,” segir Þóroddur og setur spurningamerki við tímasetningu Bíladagana, sem jafnan eru haldnir í kringum 17. júní. „Þetta spillir bæði hátíðarhöldum í bænum og því sem byggt hefur verið upp varðandi útskrift hjá MA. Þetta fer mjög illa saman,” segir Þóroddur. Kristján Þ. Kristinsson, stjórnarformaður BA, tekur ekki vel í þær hugmyndir að færa dagsetningu Bíladagana til. „Okkur finnst það ekki álitlegt þar sem þetta er byggt í kringum þess Þjóðahátíðarsýningu hjá okkur og er búið að vera óslitið síðan 1974. Svo er þetta líka gulltími fyrir veitingahúsamenn,” segir Kristján. Hann segir þó þörf vera á breytingum. „Þetta er verkefni sem þarf að vinna úr og leysa. Stóra málið er auðvitað það að komast með þetta upp á akstursæfingasvæði okkar fyrir ofan bæinn og það væri óskandi ef það væri hægt að halda hátíðina þar að ári.”