Leik-og söngkonan Bryndís Ásmundsdóttir verður dagskrárstýra í ListaGilinu á laugardagskvöldinu og verður yfirskriftin, „Taumlaust Karnival og Eyfirsk Hönnun.” ListaGilið mun þá breytast í leikhús og verður ekkert til sparað. Um 100 manns taka þátt í meira en tveggja tíma dagskrá og má nefna atriði eins og Sirkus Artika, Skapandi Sumarstörf og Rocky Horror í flutningi Leikfélags Akureyrar. Hin vinsæla Draugaslóð Minjasafnsins í Innbænum verður svo á sínum stað að kvöldi föstudags kl. 22:30. Skerandi skelfileg óp, drungaleg tónlist og verur af öðrum heimi er meðal annars það sem gestir og gangandi munu heyra og sjá í Innbænum það kvöld.
„Yljaðu þér við minninguna”, nefnist svo samvinnuverkefni heimilisfólks Öldrunarheimila Akureyrar, Ásprents- Stíls og Akureyrarstofu. Um er að ræða sögusöfnun um minningar er tengjast bænum og verður hún til sýnis á tveimur kaffihúsum, Bláu könnunni og Pennanum-Eymundsson. Guðrún segir tónlistina vera áberandi á Akureyrarvökunni í ár, en alls 13 tónlistaratriði verða í boði. „Nú sem aldrei fyrr er grasrótin á fullu skriði, tónlistin er áberandi því mjög margir tónleikar verða í boði og má þar nefna Sickbird, Myrká, Lay Low, Völva, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, píanóleikarann Víking Heiðar og svo mun pönkhljómsveitin Buxnaskjónar slá botninn í þetta tónlistarlega séð með tónleikum í Sundlaug Akureyrar síðdegis á sunnudaginn. Svo má enginn missa af gjörningnum hans Birgis Sigurðssonar í Brekkuskóla sem ber heitið Aðalnámskrá Grunnskólanna,” segir Guðrún.
Einnig verður myndlistin áberandi og verða 16 myndlistarviðburðir á dagskrá. Meðal sýninga er Rabbabari í Ketilhúsinu, Litróf, ljósmyndasýning Heiðu, arkitektúr í Hrím hönnunarhúsi, Tómslög – hljóðverk, Uppskeruhátið ræktunar og myndlistar, Veggverk Jorisar,Víðátta 601, Guðrún Pálína og Kristján Pétur í Gallerí Box og Guðir og menn í Listasafni Akureyrar, svo eitthvað sé nefnt. Húni II mun svo fara með leikskólabörnin af Hólmasól í siglingu og þau munu senda friðarboðskap í flöskuskeyti fyrir borð annað árið í röð. „Það verður því að nægu taka og nóg í boði fyrir alla,” segir Guðrún.
Ítarlega dagskrá um Akureyrarvöku má sjá á www.visitakureyri.is.