"Við erum þá jafnframt að fá 14.000 bílferðir í gegnum hverfið hjá okkur. Það er fyrst og fremst það sem við höfum áhyggjur af og þess vegna erum við að skoða efnistökustaði nær framkvæmdinni." Eins og fram hefur komið samþykkti skólanefnd Eyjafjarðarsveitar á fundi sínum nýlega að beina því til sveitarstjórnar að hún beiti sér tafarlaust fyrir því að tryggja umferðaröryggi gangandi vegfarenda á Eyjafjarðarbraut vestri við Hrafnagilsskóla og Krummakot. Verði efnistaka úr Þveráreyrum efri, vegna lengingar flugbrautar, óumflýjanleg beinir skólanefnd þeim tilmælum til sveitastjórnar að tafarlaust verði ráðist í framkvæmd við undirgöng núverandi vegar við Hrafnagilsskóla eða flutning á Eyjafjarðarbraut vestri í samræmi við gildandi aðalskipulag.
Sveitastjórn Eyjafjarðarsveitar fundaði með fulltrúum þriggja stofnana á dögunum, Skipulagsstofnunar, Veiðimálastofunar og Umhverfisstofnunar. Tilgangurinn var að leita ráðgjafar hjá þessum aðilum um það hvernig best verði staðið að efnistökumálum í framtíðinni m.a. með hliðsjón af fyrirhugaðri lengingu Akureyrarflugvallar. Arnar Árnason oddviti Eyjafjarðarsveitar sagði að í raun hefði ekki komið neitt nýtt fram á fundinum og að ekki væru til neinar flýtileiðir í svona skipulagsmálum. "Menn verða að fara lögformlegar leiðir, það þarf að breyta aðalskipulagi til að opna nýjar námur og það tekur þrjá til sex mánuði. Einnig þarf sækja um tilskilin leyfi varðandi það hvað námurnar eiga að vera stórar," sagði Arnar. Þá fóru heimamenn með fulltrúum þessara stofnana um sveitarfélagið til að skoða efnistökustaði.
"Það sem kom mér mest á óvart á fundi með þessum sérfræðingum var að við efnistöku í á, eru áhrifin miklu meiri uppfyrir í ánni en niðurfyrir, sem er alveg öfugt við það sem maður ímyndaði sér. Þegar botninn er lækkaður í ánni á einum stað, skríður hann af stað langt upp eftir ánni á meðan er að fyllast í holuna. Það getur orðið til þess að gróðurbotn þar sem hrognin og seiðin eru, skemmist. Þannig að það er að mörgu að hyggja," sagði Arnar.