Vel sóttur fundur Handboltafélags Akureyrar

Fundur var haldinn í kvöld í teríu Íþróttahallarinnar á Akureyri þar sem yfirskrift fundarins var "Handboltafélag Akureyrar Staða-Framtíð". Fundurinn var vel sóttur og greinilegt að þetta málefni snertir margan manninn hér á Akureyri. Mátti sjá gamla formenn og framkvæmdarstjóra á svæðinu, körfuboltamenn, knattspyrnumenn sem og almenning.

Málefnalegar umræður fóru fram á fundinum og voru menn sammála um það að það þurfi að snúa bökum saman í þessu og ekki vera að velta sér upp úr fortíðinni og hvort þú sért KA maður eða Þórs maður. Þetta er sameiginlegt félag bæjarins og fólki beri að hlúa að því.

Stefán Gunnlaugsson formaður KA óskaði eftir nýrri fimm manna stjórn á fundinum, tveir til þrír úr KA og tveir til þrír úr Þór. Hann sagði þetta vera grundvallaratriði fyrir áframhaldi félagsins. Hann sagði ennfremur að tekjurnar sem kæmu inn í haust færu alfarið í lánin sem félagið skuldar og að gera upp skuldir við leikmenn. Ekki stæði til að semja við leikmenn um laun á þessu ári, það séu einfaldlega ekki peningar til þess að borga leikmönnum mánaðarleg laun.

Hannes Karlsson formaður Handboltafélags Akureyrar sagði í lok fundarins að vel gengi að fá lánardrottna til liðs við félagið og fyrirtæki séu tilbúin að styrkja þá.

Nýjast