Undanfarna daga hefur borið þó nokkuð á umræðu um unnar kjötvörur í skólamötuneytum Reykjavíkurborgar. Síðastliðinn
sunnudag birtist ágætis grein í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni “Pottur víða brotinn” en greinina skrifa þær Margrét Gylfadóttir,
Sigurrós Pálsdóttir og Sigurveig Káradóttir. Norðlenska hefur um árabil þjónustað og framleitt kjötvörur fyrir mötuneytismarkað
og meðal viðskiptavina er Reykjavíkurborg. Af greininni má lesa að öll framleiðslufyrirtæki eru sett undir einn hatt og innihaldslýsingar eins eða
fárra fyrirtækja gerðar að innihaldslýsingu starfsgreinarinnar. Í umræðunni hafa einnig komið fram fullyrðingar sem ekki eiga við rök
að styðjast í það minnsta hvað varðar Norðlenska. Fyrst skal nefna að fram kom í greininni að haft hafi verið samband við alla birgja
Reykjavíkurborgar. Ekki var haft samband við starfsfólk Norðlenska, hvorki fyrir né eftir birtingu greinarinnar. Í greininni sjálfri og í
útvarpsviðtölum er talað um innihaldslýsingar sem samanstanda af mörgum kjöttegundum og tekið fram að uppistaðan í mörgum farsvörum
sé trippakjöt og jafnvel reykt trippakjöt og kindakjöt. Þessar lýsingar eiga alls ekki við innihaldslýsingar á kjötvörum Norðlenska.
Innihaldslýsingar á kjötbollum, sviknum héra, bjúgum og kjúklinganöggum sem finna má í greininni eru ekki innihaldslýsingar á
kjötvörum Norðlenska. Norðlenska framleiðir sem dæmi 4 tegundir af kjötbollum, engin þeirra vara hefur að geyma trippakjöt hvað þá
að það sé reykt. Kjötinnihaldið samanstendur af óunnu kjöti. Af kjötbollutegundum Norðlenska, hafa Sænskar kjötbollur verið oftast
á matseðli hjá Reykjavíkurborg og má sjá innihaldslýsinguna hér að neðan.
Sænskar kjötbollur frá Norðlenska: Grísa og lambakjöt ( 75%) , vatn, laukur, raspur ( hveiti, ger, salt), sojaprótein, kartöflusterkja, jurtaolía, sykur,
salt, bindiefni E451. Prótein 15g, Kolvetni 9g, Fita 14g, Natríum 0,5g Orka: 926 kJ/ 222 kkal
Norðlenska sérframleiðir einnig skólabjúgu fyrir mötuneyti. Innihald þeirra samanstendur af grísakjöti ( 75%), vatni, kartöflumjöli, salti,
laukdufti, kryddi, bindiefni E451, þráavörn E300, rotvarnarefni E250. Eins og sjá má inniheldur varan aðeins eina kjöttegund, grísakjöt og skal
það tekið fram að eingöngu er notað óunnið grísakjöt. Í samanburði við önnur bjúgu sem framleidd eru hjá
Norðlenska eru Skólabjúgun bæði með lægra fituinnihald og saltminni.
Skólabjúgu | Kindabjúgu | ||
Prótein | 11 | 11 | |
Kolvetni | 8 | 7 | |
Fita | 12 | 17 | |
Natríum | 0,7 | 0,8 | |
Orka | 767 kJ/ 184 kkal | 935 kJ/ 225 kkal | |