Varaformaður skipulagsnefndar vill íbúakosningu um síkið

Ólafur Jónsson varaformaður skipulagsnefndar Akureyrarbæjar vill að íbúum bæjarins gefist kostur á að kjósa með rafrænum hætti um hvort síki verði gert í miðbænum eða ekki. Samkvæmt tillögum sem lagðar hafa verið fram er gert ráð fyrir að gert verði síki frá menningarhúsinu Hofi að Skipagötu.  

Ólafur greindi frá tillögu sinni á fjölmennum hádegisfundi í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins í dag, segir í fréttatilkynningu. Þar segir Ólafur að þessi tillaga, að gera ráð fyrir síki, sé mjög umdeild meðal íbúa. Á því sé enginn vafi. Hann segir að við vinnu í skipulagsnefnd hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem borist hafa og þannig eigi það líka að vera. Íbúarnir eigi að sjálfsögðu að ráða för í þessum efnum.

Ólafur skipar 2. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins við komandi bæjarstjórnarkosningar. Hann segir að þessi tillaga hafi fallið í góðan jarðveg. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem hann leggur þetta til og vísar í því sambandi til bókunar sinnar í skipulagsnefnd í janúar.

Nýjast