Það tók Valsstúlkur aðeins sex mínútur að skora fyrsta mark leiksins og það gerði Rakel Logadóttir. Rakel fékk boltann utarlega í teig heimamanna og skoraði með hörkuskoti í fjærhornið. Staðan 1:0 fyrir gestina, sem réðu lögum og lofum í upphafi leiks. Dóra María Lárusdóttir fékk dauðafæri fyrir gestina fjórum mínútum síðar en Berglind Magnúsdóttir í marki Þórs/KA varði skalla hennar af stuttu færi. Valsstúlkur héldu áfram að sækja og voru mun líklegri til þess að bæta við marki en Þór/KA að jafna. Heimastúlkur komust þó meira inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleikinn, en komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn Vals.
Þegar ein mínútu var til loka fyrri hálfleiks tókst hins vegar heimastúlkum að jafna leikinn. Vesna Smiljkovic þeyttist upp völlinn og sendi boltann á Dönku Podovac, sem skaut boltanum í báðar stengur Valsmanna, en Rakel Hönnudóttir var réttur maður og réttum stað og hirti frákastið og skoraði af stuttu færi. Staðan 1:1. Aðeins tveimur mínútum síðar kom Danka Podovac Þór/KA yfir í leiknum, er hún skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Rakel Hönnudóttir. Þór/KA hafði því heldur betur snúið leiknum sér í hag á tveggja mínútna kafla og hafði 2:1 forystu í hálfleik.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og það tók þá einungis fjórar mínútur að jafna leikinn. Valsstúlkur þá fengu hornspyrnu, þar sem boltinn endaði á kollinum á Kristínu Ýr Bjarnadóttur sem skallaði boltann í netið. Staðan 2:2. Valsstúlkur héldu áfram að ógna marki Þórs/KA og Katrín Jónsdóttir fékk ákjósanlegt færi á 57. mínútu en Berglind í marki heimastúlkna varði. Berglind var svo aftur vel á verði tveimur mínútu síðar þegar Hallbera Guðný Gísladóttir voru sloppin inn fyrir vörn Þórs/KA, en Berglind gerði vel með að verja. Hallbera Guðný var svo aftur nálægt því að koma Valsstúlkum yfir á 64. mínútu en hörkuskot hennar af löngu færi hafnaði í þverslánni. Aðeins mínútu síðar slapp Rakel Hönnudóttir inn fyrir vörn Vals eftir sendingu frá Vesnu Smiljkovic en skot Rakelar var slakt og fór framhjá markinu.
Þegar allt virtist stefna í jafntefli kom Dagný Brynjarsdóttir Valsstúlkum yfir á 88. mínútu leiksins með skoti af stuttu færi inn í teig. Það var svo Hallbera Guðný Gísladóttir sem gulltryggði sigur Vals með marki á uppbótartíma og tryggði Val 4:2 sigur í leiknum.Valur styrkti þar með stöðu sína á toppnum með 12 stig, en Þór/KA hefur sjö stig í öðru sæti.