Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í sameinuðu sveitarfélagi standa

Kjörnefnd, sem skipuð af sýslumanninum á Akureyri, til að úrskurða um tvö vafaatkvæði í sveitarstjórnarkosningunum í sameinuðu sveitarfélagi Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar 29. maí sl. kvað í dag þann úrskurð að þau skuli vera gild. Það þýðir að þau úrslit kosninganna sem kynnt voru strax eftir kosningarnar standa óbreytt. Þetta kemur fram á vef sveitarfélagsins.  

Eins og fram hefur komið voru úrslit kosninganna í sameiginlegu sveitarfélagi Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps kærð til sýslumannsins á Akureyri vegna tveggja vafaatkvæða. Atkvæðin skáru úr um hvort Samstöðulistinn (J) eða Lýðræðislistinn (L) fengu hreinan meirihluta. Samstöðulistinn fékk 170 greidd atkvæði og Lýðræðislistinn 169 greidd atkvæði. Við þetta bættust síðan tvö vafaatkvæði sem bæði voru túlkuð sem atkvæði greidd Lýðræðislistanum. Úrslit kosninga urðu þau að J-listi Samstöðulistans hlaut 170 atkvæði og 2 menn kjörna og L-listi Lýðræðislistans hlaut 171 atkvæði og 3 menn kjörna. Auðir seðlar og ógildir voru alls 11 að tölu. Á kjörskrá voru 440 manns, alls kusu 352. Kosningaþátttaka var því 80,0%.

Kosningu í sveitarstjórn hlutu:

Hanna Rósa Sveinsdóttir

Helgi Bjarni Steinsson

Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Axel Grettisson

Helgi Þór Helgason

Nýjast