Ungmennaráð tekur formlega til starfa næsta haust

Nýskipað ungmennaráð Akureyrar hittist í fyrsta skiptið fyrir helgina en ráðið tekur formlega til starfa næsta haust. Í ráðinu sitja 11 ungmenni frá grunnskólum bæjarins, framhaldsskólum, ÍBA, skátunum og Ungmenna-Húsinu.  

Tilgangur og markmið ráðsins er m.a. að þeir sem eru yngri en 18 ára geti fengið að taka þátt í lýðræðinu í  bæ okkar og þó þau séu ekki með kosningarétt geti ungmennin haft eitthvað um sitt eigið líf að segja og fái þar með ábyrgð á sjálfum sér.  Þau hafi vettvang og leiðir til að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila. Einnig fær ráðið fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Hópurinn kom fyrst saman í Rósenborg þar sem þau notuðu tækifærið til að kynnast betur og hitta leiðbeinendur sína sem eru þau Linda Björk Pálsdóttir og Hlynur Birgisson frá félagsmiðstöðvunum og Kristján Bergmann frá Ungmenna-Húsinu. Eftir stutta veru í Rósenborg voru ungmennin keyrð niður í Ráðhús á formlegan stofnfund þar sem Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdarstjóri samfélags- og mannréttindadeildar, Þorlákur Axel Jónsson formaður samfélags- og mannréttindaráðs og Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri tóku á móti þeim og buðu þau velkomin til starfa og sýndu þeim húsakynnin.

Undirbúningur fyrir stofnun ungmennaráðs á Akureyri hefur staðið í nokkur ár. Í apríl sl. samþykktu samfélags- og mannréttindaráð og bæjarstjórn Akureyrar að stofna til ungmennaráðs enda eru sveitarstjórnir hvattar í æskulýðslögum til að hlutast til um að stofnuð séu sérstök ungmennaráð. Samkvæmt lögunum skulu ungmennaráð m.a. vera sveitastjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Þetta ákvæði æskulýðslaga er í anda barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem fram kemur að tryggja skuli rétt barns  til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

Nýjast