Undirbúningur fyrir sláturtíð á fullu

Undirbúningur fyrir komandi sláturtíð er í fullum gangi hjá Norðlenska „og gengur mjög vel, enda er hér mikið að góðu fólki með mikla reynslu,“ segir Sigmundur Hreiðarsson vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.  Sláturhúsið verður fullmannað 1. september næstkomandi, viku seinna en var í fyrra en þá kom upp sú staða að nokkuð margir dagar nýttust ekki til fulls.   Sigmundur segir að ráðningar starfsfólks séu á lokastigi og sér sýnist sem hlutfall Íslendinga verði um 50% sem er heldur meira en var á síðastliðnu ári.  „Meira en helmingur af ráðnum starfsmönnum hafa unnið hér áður, bæði Íslendingar og útlendingar,“ segir Sigmundur.  Ráðgert er að hefja slátrun miðvikudaginn 25 ágúst næstkomandi með forslátrun, „en svo verðum svo með fullmannað hús í byrjun september og áætlum sláturtíðarlok miðvikudaginn 27 október. Við reiknum með að slátra svipuðu magni og í fyrra þ.e.a.s um 77.500 dilkum,“ segir Simundur.Norðlenska hefur óskað eftir því við bændur að þeir skili inn sláturfjárloforðum eins fljótt og auðið er, því það hjálpi mikið til við niðurröðun sláturáætlunar og sé öllum til hagsbóta.

Nýjast