Ummæli Lárusar Orra eiga sér tæplega fordæmi

Sigfús Ólafur Helgason formaður Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri er mjög ósáttur við ummæli Lárusar Orra Sigurðssonar þjálfara karlaliðs Þórs í knattspyrnu, sem hann viðhafði á fotbolti.net í gærkvöld, eftir að Þór hafði tapað fyrir Leikni í Breiðholti á Íslandsmótinu. Sigfús Ólafur sagði að ummæli Lárusar Orra ættu sér tæplega fordæmi. Framkvæmdastjórn Þórs hefur verið boðuð til fundar síðar í dag eða kvöld og mun í kjölfarið senda frá sér yfirlýsingu.  

Lárus Orri gagnrýndi aðalstjórn Þórs í viðtalinu og sagði m.a. að það virtist skipta meira máli fyrir formann Þórs að eignast vini hjá KA en að leyfa Þórliðinu að æfa á Þórsvellinum. KA fékk afnot af Þórsvellinum í leiknum gegn Gróttu í gærkvöld, þar sem Akureyrarvöllur er ekki tilbúinn og það virðist ekki hafa fallið vel í kramið hjá Lárusi Orra. Það var framkvæmdastjórn Þórs sem tók ákvörðun um að lána KA Þórsvöllinn, þegar eftir því var leitað.

Lárus segir í viðtalinu að það sé erfitt að vera þjálfari Þórs þegar stjórnin vinni á móti sér. Ágreiningur sé til staðar milli hans og stjórnarinnar og aðspurður segist hann klárlega íhuga að segja af sér. "Það verður farið yfir málin núna vonandi um helgina og tekinn einn dagur fyrir einu. Ég er búinn að eyða nokkrum árum í byggja þetta lið upp, en kannski er kominn tími til að stíga frá og leyfa öðrum að byrja frá grunni," segir Lárus.

Þór hefur ekki farið vel af stað í 1. deildinni og er með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. Lárus Orri gaf það út fyrir mótið að stefnan væri að vinna úrvalsdeildarsæti á þessari leiktíð.

Nýjast