KA-menn sóttu Selfyssinga heim á Selfossvelli þegar 14. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu hófst í gærkvöldi. Heimamenn nýttu sín færi betur í leiknum og uppskáru fyrir vikið sigur í leiknum.
Selfyssingar byrjuðu betur og voru meira með boltann en gekk illa að skapa sér marktækifæri. KA- menn komu sér hægt og bítandi inn í leikinn og Norbert Farkas átti skot að marki Selfyssinga á 20. mínútu en Jóhann Ólafur Sigurðsson varði vel í marki heimamanna. Þremur mínútum síðar átti Steinn Gunnarsson gott skot að marki Selfyssinga en Jóhann Ólafur var aftur vel á verði í marki heimamanna og varði skot hans. Það var svo á 29. mínútu að fyrsta mark leiksins kom og það gerði markaskelfirinn mikli, Sævar Þór Gíslason, þegar hann var réttur maður á réttum stað og skoraði af stuttu færi eftir að KA- menn höfðu bjargað á línu. Sævar Þór var svo nálægt því að koma heimamönnum tveimur mörkum yfir sjö mínútum fyrir leikhlé þegar hann var við það að sleppa einn inn fyrir vörn gestanna en varnarmenn KA sýndu frábæra vörn og því varð ekkert úr færinu. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir heimamenn.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað og lítið markvert gerðist framan af. Fyrsta færi seinni hálfleiksins kom á 59. mínútu og það áttu heimamenn en gott skot Ásgeirs Ásgeirssonar fór framhjá markinu. Heimamenn héldu áfram að sækja að marki KA og mark lá í loftinu. Á 70. mínútu leiksins var Viðar Örn Kjartansson tekinn niður í vítateig gestanna og Selfyssingar fengu dæmda vítaspyrnu. Henning Eyþór Jónasson fór á vítapunktinn og skoraði örugglega og kom heimamönnum í 2-0. KA- menn náðu þó að klóra í bakkann, á 84. mínútu náðu þeir ágætri sókn sem endaði með marki frá Andra Fannari Stefánssyni sem var einn og óvaldaður í teig heimamanna og átti ekki vandræðum með að skora. Eftir markið reyndu norðanmenn hvaða þeir gátu til þess að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og 2-1 sigur Selfyssinga því staðreynd. Steingrímur Örn Eiðsson aðstoðarþjálfari KA var svekktur með tapið. “Maður er auðvitað ekki sáttur við að tapa, en leikur okkar manna var ekkert slæmur og við vorum mun betri í seinni hálfleik.” Hann segir mörg færi hafa farið forgörðum í leiknum og það sé dýrt. “Þetta er alltaf sama sagan, það er eiginlega það sem er að fara með okkur, við nýtum ekki færin en við vorum alls ekki slakara liðið í leiknum og við áttum klárlega skilið að fá allavega annað stigið,” segir Steingrímur. Eftir leikinn hefur KA hlotið 16 stig í deildinni og vermir sjöunda sætið.