Um 650 ungmenni á Landsmóti æskulýðsfélaga á Akureyri

Þrælabörn á Indlandi verða í brennidepli á Landsmóti æskulýðsfélaga sem sett var á Akureyri nú undir kvöld, af herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands. Á landmótinu munu 650 unglingar og sjálfboðaliðar gefa vinnu sína til að styrkja hjálparstarfsverkefni á Indlandi. Verkefnið felst í því að frelsa þrælabörn á Indlandi úr ánauð og koma þeim í skóla.  Fjáröflunin fer fram með söfnun meðal almennings og sölu á handverki unglingana og styrkja frá góðum fyrirtækjum og einstaklingum.   

Á dagskrá um helgina er góð blanda af helgihaldi, leik, söng og fræðslu að ógleymdu búningaballi í Íþróttahöllinni.  Á morgun laugardag, verður boðið upp á öflugt hópastarf og meðal þess sem unglingarnir fá að gera er að læra Bollywood dans undir handleiðslu Yesmine Olson, kynna sér ísgerð í Holtseli, fara í sjálfsstyrkingu hjá Sævari Poetrix og Helgu Braga, vinna mannréttindaverkefni, skoða Iðnaðarsafnið, búa til ýmsa listmuni til sölu, kynna sér hárgreiðslu og förðun, búa til brjóstsykur,  baka, æfa sjálfsvörn og Boot Camp, leika og syngja og taka þátt í uppákomu Breytenda á milli kl. 13 og 17 á Glerártorgi. Þar verður settur upp markaður og ýmislegt fleira. Mótinu verður slitið  með kraftmikilli guðsþjónustu í Akureyrarkirkju kl.11 á sunnudaginn. 

Nýjast