Um 6.000 manns mótmæla fyrirhugaðri fækkun hjúkrunarrýma á ÖA

Bæjarstjóranum á Akureyri, Eiríki Birni Björgvinssyni, voru nú fyrir stundu afhentir undirskriftalistar með nöfnum 5.963 Akureyringa og nærsveitarmanna, þar sem  fyrirhugaðri fækkun hjúkrunarrýma á Öldrunarheimilum Akureyrar er mótmælt. Að auki hafa rúmlega 540 einstaklingar skrifað undir mótmæli á sérstakri facebooksíðu. Eiríkur bæjarstjóri og Brit J. Bieltvedt framkvæmdastjóri ÖA eiga fund með heilbrigðisráðherra í fyrramálið og munu þau afhenda ráðherra undirskriftalistana.  

Þráinn Brjánsson, einn aðstandenda við Hlíð, afhenti bæjarstjóra undirskriftalistana og hann sagðist treysta því að bæjaryfirvöld á Akureyri gerðu það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fyrirliggjandi hugmyndir nái fram að ganga. Eiríkur Björn sagði það mjög mikilvægt að geta farið á fund heilbrigðisráðherra með þann gríðarlega stuðning sem fólgin er í undirskriftalistunum. Hann sagði að allt yrði gert til að fá ráðherra til að snúa af þeirri leið að skerða fjárveitingar til hjúkrunarrýma á Akureyri. 

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2011 er boðaður niðurskurður um sjö hjúkrunarrými á Öldrunarheimilum Akureyrar, auk þess eru þrjú hjúkrunarrými skorin niður á þessu ári. Samanlagt er því um að ræða niðurskurð á 10 hjúkrunarrýmum á  Öldrunarheimilum Akureyrar. Eins og komið hefur fram, segir Brit J. Bieltvedt framkvæmdastjóri ÖA, að þessi fyrirhugaði niðurskurður sé mjög alvarlegur ekki síst í ljósi þess að hjúkrunarrúmum hafi nú þegar fækkað gríðarlega á Akureyri. Hún segir að gangi þessar hugmyndir eftir muni hjúkrunarrýmum á Akureyri og í nágrenni fækka um 33 á aðeins fimm árum. Ef FSA loki þeim rýmum sem þar eru eftir, þá muni hjúkrunarrýmum á svæðinu fækka um 40 eða 20% á örfáum árum, úr 200 í 160. Brit segir að miðað við boðaðan niðurskurð á hjúkrunarrýmum sé ljóst að loka þurfi einni deild á Öldrunarheimilum Akureyrar og segja upp starfsfólki.

Nýjast