Nálægt 60 umsóknir hafa borist um starf bæjarstjóra á Akureyri en umsóknarfrestur um starfið rann út í gær. Fjölmargar umsóknir bárust um helgina og einhverjar munu vera enn á leiðinni í pósti, þannig að endanlegur fjöldi eða nafnalisti liggur ekki fyrir. “Þetta er vissulega meira en ég bjóst við, en það er mjög ánægjulegt að sjá þennan áhuga,” sagði Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar í samtali við Vikudag í morgun.
Hann segir að talsvert hafi verið spurt um starfið og margir hafi sýnt því áhuga þannig að ljóst hafi verið að búast mætti við mörgum umsóknum. Þetta fari þó fram úr væntingum. Bæjarstjórnin hefur sett sér það markmið að ráða bæjarstjóra fyrir mánanðarmót og segir Geir að reynt verði að standa við það, en það muni þó ráðast af því hvernig viðtöl og matsferlið gengur. “Það er alla vega ljóst að við munum hafa nóg a gera næstu dagana,” sagði Geir.