Fjárhagslegt tjón Becromal í Krossanesi á Akureyri vegna rafmagnsleysisins sl. föstudagskvöld, er um 20 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum Gauta Hallssonar framkvæmdastjóra. Er tjónið vegna skemmdrar vöru, framleiðslutaps vegna endurræsingar og aukakostnaðar vegna uppákomunnar, þ.e. útköll og yfirvinna starfsmanna.
Eins og fram hefur komið og fjölmargir landsmenn urðu varir við, varð rafmagnslaust á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi sl. föstudagskvöld vegna bilunar. Vélar í Becromal stöðvuðust og komu allt að 40 starfsmenn að endurræsingunni, en eins og er ætti ekki að þurfa nema 6 starfsmenn á vakt þegar allt er í lagi, að sögn Gauta.
Þetta sama kvöld varð tugmilljóna króna tjón í prjónastofunni Glófa á Akureyri, þegar eldur kom þar upp. Ólafur Ívarsson tæknistjóri segir að unnið sé að því að meta tjónið, ekki liggi endanlega fyrir hversu mikið það er en ljóst að það er umtalsvert, hlaupi á tugum milljóna króna. Ýmislegt bendir flest til þess að eldsupptök megi rekja til þess þegar ragmagn komst aftur á. „Það hefur ekki neitt verið sannað í þeim efnum, en ótrúleg tilviljun ef rekja má eldsupptök til einhvers annars," segir Óalfur. Rafhlaða er í vélinni sem heldur minni hennar inni ef rafmagn fer af.
Gunnar Jóhannsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri segir að rannsókn á eldsupptökum sé ekki lokið en að verið sé að skoða prjónavél úr verksmiðjunni, sem sé líklegur "sökudólgur." Gunnar segir að fyrstu athuganir bendi til þess að rafmagnsleysið hafi haft áhrif þarna á en að endanlega niðurstaða liggi ekki fyrir.
Ólafur tæknistjóri Glófa, telur líklegt að starfsemi fyrirtækisins muni liggja niðri í að minnsta kosti mánuð og það sé vissulega bagalegt. „Það var mikið að gera hjá okkur eins og ævinlega á vorin, þá eru við að framleiða fyrir ferðamannatíðina á sumrin, þannig að þetta er mjög slæmt," segir hann. Panta þarf nýtt hráefni til framleiðslunnar, band og fleira og það tekur sinn tíma, frá viku og upp í mánuð. „En ég vona að stoppið vari sem skemmst, ég gæli við að framleiðslan verði komin í fullan gang í byrjun júní," segir Ólafur.