Um 1370 nemendur hefja nám í VMA í næstu viku
Mest er sótt í almennt bóknám til stúdentsprófs og einnig er góð aðsókn á málm- og véltæknigreinar, en stígandi hefur verið í þeim greinum undanfarin tvö ár. Einnig er vel sótt í rafiðnaðardeildina, sjúkraliðabraut og grunnnám matvælagreina. Það er hins vegar algjört hrun í byggingargreinum að sögn Sigríðar Huldar. „Þetta hefur farið minnkandi undanfarin ár en þetta er í sögulega lágmarki í vetur. Þetta helst alltaf í takt við atvinnulífið," segir hún.
Aðspurð um hvort deildin verði jafnvel lögð niður með sama áframhaldi segir Sigríður: „Það er auðvitað ekki mjög hagkvæmt að halda úti námi sem fáir sækja inn í en það er okkar skoðun að það sé betra að halda þessu inni en taka þetta út þar sem það er mjög erfitt að fara af stað með þetta aftur," segir Sigríður. Einnig er VMA að fara af stað á ný með meistaraskóla í kvöldskóla í haust og verða í boði áfangar sem eru sameiginlegir öllum iðngreinum til meistararéttinda, en meistaraskólinn verður einnig áfram í boði í fjarnámi.
Sigríður Huld mun leysa Hjalta Jón Sveinsson skólameistara af í vetur sem verður í námsleyfi. Sigríður hefur gegnt stöðu aðstoðarskólastjóra undanfarin fimm ár en Benedikt Barðason mun gegna stöðu aðstoðarskólameistara.