Um 100 ára gamalt reynitré í Lystigarðinum rifnaði upp með rótum

Miklar skemmdir urðu á trjágróðri í Lystigarðinum á Akureyri í hvassviðrinu í aðfararnótt miðvikudags og meðal annars rifnaði tæplega 100 ára gamalt reynitré upp með rótum. Fleiri tré í garðinum rifnuðu upp með rótum og þá brotnuðu greinar af trjám víðs vegar um garðinn.  

Björgvin Steindórsson forstöðumaður Listigarðsins sagði að aðkoman hafi verið nokkuð nöturleg. Tjónið væri mikið og þá fyrst og fremst tilfinningalegt. "Það er ljóst af ummerkjum að það hefur mikið gengið á í garðinum og ég hefði ekki viljað vera staddur hér þegar lætin voru sem mest," sagði Björgvin.

Gamla reynitréð sem brotnaði í reyniviðargarðinum við aðalinnganginn að austan, er með fyrstu trjánum sem gróðursett voru í garðinum árið 1910. Annað stórt reynitré norðan við gróðurhúsið rifnaði einnig upp með rótum en það er um rúmlega 60 ára gamalt og stórt lerkitré sem gróðursett var árið 1955 rifnaði einnig upp með rótum.

Björgvin sagði að það hafi gerst áður að tré hafi rifnað upp eða brotnað í Lystigarðinum í miklu hvassviðri en í mun minna mæli en nú. Ekki varð tjón á mannvirkum í hvassviðrinu. Það er ekki laust við að þeim erlendu ferðamönnum sem sóttu garðinn heim í vikunni hafi verið nokkuð brugðið yfir aðkomunni. Björgvin sagði að Lystigarðurinn hafi vel sóttur í sumar og hefði gestum verið að fjölga á hverju sumri.

Nýjast