"Það er einmitt það sem er verið að skoða en Akureyrarbær telur mikilvægt að farið verði í þessar rannsóknir, því það er allavega fyrsta skrefið í vonandi lengra ferli," segir Eiríkur Björn. Norðurorka sótti nýlega um einkaheimild til rannsókna á hauggasi til metangasvinnslu til Akureyrarbæjar, með það að markmiði að framkvæma nauðsynlegar boranir, afkastamælingar og úrvinnslu þeirra. Það þurfi að gera til að hægt sé að svara því hvort nægilegt gas sé til staðar fyrir koltrefjaverksmiðju á Akureyri. Í byrjun árs var undirritaður rammasamningur milli Strokks Energy ehf. og Akureyrarkaupstaðar um að komið verði á fót koltrefjaverksmiðju á Rangárvöllum. Þá kom fram að gangi áætlanir eftir muni verksmiðjan skapa allt að 100 ný störf, en heildarkostnaður við uppbygginguna er áætlaður 9-10 milljarðar króna. Metanorka, sem er dótturfélag Íslenska gámafélagsins, óskaði á dögunum eftir samstarfi við Akureyrabæ um vinnslu á metani úr sorphaugunum, með það fyrir augum að gefa Eyfirðingum líka kost á að keyra á metangasi. Hingað til hefur bara verið hægt að kaupa metangas á tveimur afgreiðslustöðvum N1 á höfuðborgarsvæðinu.