Tvennir aukatónleikar Frostrósa á Akureyri

Mikil ásókn er í miða á tónleika Frostrósa um allt land og á Akureyri seldist upp á ferna tónleika fyrir hádegi á miðasöludegi. Tvennum aukatónleikum hefur nú verið bætt við og verða þeir laugardaginn 18. desember kl. 20.00 og kl. 23.00. Tónleikarnir í Hofi á Akureyri eru nú alls orðnir sex talsins, en fleiri geta þeir alls ekki orðið.  

Það stefnir í algera metsölu á Frostrósir í ár, alls hafa selst ríflega 20 þúsund miðar. Í níu ára sögu Frostrósa hefur miðasala aldrei farið eins vel af stað en tónleikarnir hafi verið þeir vinsælustu á Íslandi síðastliðin ár.  "Það hefur kostað heilmikla útsjónarsemi að finna leiðir til að bæta við tónleikum fyrir norðan. Það verður mikið álag á listafólki sem sumt hvert kemur einnig fram á tónleikunum Frostrósir klassík sem er endapunkturinn á tónleikaröðinni í ár. Garðar Thór og Jóhann Friðgeir verða að geta sótt æfingar í Háskólabíói fyrir klassísku tónleikana dagana fyrir og sama dag og aukatónleikarnir verða á Akureyri. Við skulum vona að það fari vel um þá í fluginu en þeir verða nánast eins og jó-jó á milli" segir Samúel Kristjánsson skapari og forsvarsmaður Frostrósa.

Fjöldi Íslendinga sækir sér jólaskapið á Frostrósatónleikana ár eftir ár og á síðasta ári voru tónleikagestir ríflega 22 þúsund. Glæsileg umgjörð og einstakur hátíðleiki þeirra hefur skapað sér sess sem ómissandi liður í aðdraganda jólahátíðarinnar. Þetta er níunda árið í röð sem Frostrósartónleikarnir eru haldnir. Flytjendur í Reykjavík og á Akureyri eru: Eivør, Hera Björk, Margrét Eir, Ragnheiður Gröndal og Regína Ósk, Friðrik Ómar, Garðar Thór Cortes, Jóhann Friðgeir og Stefán Hilmarsson. Flytjendur í tónleikaferð um landið eru: Hera Björk, Ragnheiður Gröndal og Regína Ósk, Friðrik Ómar, Garðar Thór Cortes og Jóhann Friðgeir. Tónlistarstjóri er sem fyrr Karl Olgeirsson og Árni Harðarson stjórnar stórhljómsveit Frostrósa.

Nýjast