Tveir starfsmenn Becromal fluttir á sjúkrahús eftir efnaslys

Tveir starfsmenn Becromal Iceland í Krossanesi voru fluttir á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri, eftir að efnaslys varð í verksmiðjunni á þriðja tímanum í dag. Að sögn Þorbjörns Haraldssonar slökkviliðsstjóra voru mennirnir að dæla ætandi og ertandi efni af vél inn á lokað kerfi í verksmiðjunni þegar slanga losnaði af rörenda og slettist efnið á mennina.  

Mennirnir voru með öryggisbúnað og vel varðir en annar þeirra var þó betur búinn en hinn að sögn Þorbjörns. "Mennirnir fóru strax úr fötunum sem höfðu mengast af þessu efni og í sturtu til að skola sig vel. Þeir voru svo fluttir með sjúkrabifreið til frekari meðferðar á FSA." Þorbjörn segir að öllum öryggisreglum hafi verið fylgt og að ánægjulegt hafi verið að sjá að menn hafi fylgt góðri öryggisáætlun. Tveir sjúkrabílar og einn slökkvibíll voru sendir á staðinn, þar sem fyrstu upplýsingar voru frekar óljósar að sögn Þorbjörns. Einnig fór lögregla á staðinn.

Nýjast