Tveir nýir svifryksmælar væntanlegir í næstu viku

Tveir nýir færanlegir svifryksmælar eru væntanlegir til Akureyar í næstu viku og mun sérfræðingur frá Umhverfisstofnun setja þá upp.  Koma þarf upp festingum og ákveða staðsetningar mælanna.  Beðið hefur verið eftir þessum mælum í nokkurn tíma.  

All nokkurt svifryk hefur verið á Akureyri undanfarna daga, en Alfreð Schiöth hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra segir að ævinlega þegar fari að vora myndist mikið svifryk, göturnar þorna og óhreinindi vetrarins komi í ljós.  "Svifryksmælirinn sem staðsettur er á horni Glerárgötu og Tryggvabrautar, hefur bilað reglulega og oft tekið tíma að fá í hann varahluti þannig að við eigum lítið af gögnum um svifryk í vetur, sem er bagalegt.  Við horfum hins vegar fram á bjartari tími í þessum efnum þegar nýju mælarnir verða teknir í gagnið, en þeir munu sýna megnun í rauntíma og væntanlega verða þær tölur aðgengilegar á vef Akureyrarbæjar," segir Alfreð.

Gamli mælirinn verður áfram á horni Glerárgötu og Tryggvabrautar, enda þykja þau gatnamót ein þau þyngstu í bænum hvað svifryk varðar, en þar er umferð einna mest í bænum.

Nýjast