Tvær ljósmyndasýningar opnaðar í Listasafninu

Á Akureyrarvöku, laugardaginn 28. ágúst kl. 15.00, verða tvær ljósmyndasýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri, annars vegar hin árlega sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands og hins vegar sýning á myndröðinni Trú eftir norska ljósmyndarann Ken Opprann. Sýningarnar standa til 17. október.  

Veitt voru verðlaun í sjö flokkum fyrir bestu myndir liðins árs -fréttamynd ársins, íþróttamynd ársins, portrettmynd ársins, tímaritsmynd ársins, umhverfismynd ársins, daglegt líf-mynd ársins og myndröð ársins - en í þetta sinn verður litið framhjá þessari flokkun íslensku blaðaljósmyndaranna og fókusinn settur á sólmyrkvann sem lagðist yfir land og þjóð í kjölfar efnahagshrunsins; búsáhaldabyltinguna, gerendur og þolendur, glundroðann og óborganlega minnisvarða hins meinta hugmyndafræðilega gjaldþrots nýfrjálshyggjunnar.

Myndirnar eru í ólgandi litum, ágengar og átakanlegar, teknar á stafrænar vélar af dýrustu sort sem fanga hvæsandi hita andartaksins í margra megabæta upplausn. Til samanburðar tekur Opprann sínar myndir á filmu í svarthvítu með gömlu aðferðinni. Íslenskur veruleiki, linnulausar erjur í bland við niðurdrepandi múgæsinginn, víkur fyrir kyrrlátri sjálfsskoðun, skarkali ytri veruleika fyrir bljúgri bæn, hér og nú fyrir því tímalausa.

Í fimmtán ár ferðaðist Ken Opprann (f. 1958) um heiminn og ljósmyndaði fólk, sem aðhyllist öll helstu trúarbrögð heims, á fundi við guðdóminn. Hér gefur að líta áhrifamiklar ljósmyndir sem lýsa kristnum mönnum, múslimum, gyðingum, hindúum og búddistum við andlega iðkun sína. Opprann var viðstaddur ótal mikilvægar trúarhátíðir, vitjaði sögufrægra helgistaða allra þessara trúarbragða og leitaðist við að festa tjáningu trúarinnar á mynd, hvort sem hana bar fyrir augu á opinberum stöðum eða einkalegum. Þó að blæbrigðin séu mörg eiga allar þessar myndir sinn sameiginlega svip. Þar fer saman falslaus einlægni og þrotlaus leit að þeim mætti sem veitt getur hvíld frá hamagangi okkar rótlausu veraldar.

Sýningin á myndum Kens Opprann er haldin í samvinnu við forlagið Opnu, sem hefur gefið út bókina Trú með myndum eftir Opprann og fróðlegum textum sérfræðinga í helstu trúarbrögðum heims. Með bók sinni leitast höfundurinn við að byggja brú milli ólíkra trúarbragða og auka samkennd okkar fyrir framandi trúarbrögðum og siðum þvert á öll landamæri. Sýningu Blaðaljósmyndarafélagsins fylgir einnig veglegur katalógur, Myndir ársins, sem forlagið Sögur gaf út og fást bæði ritin í Listasafninu.

Í klefa vestursalar Listasafnsins hefur verið komið upp hefðbundnu myrkraherbergi þar sem gestir fá að kynnast framköllun og stækkun mynda frá filmu yfir á pappír. Hér sýna meðlimir í Áhugaljósmyndaklúbbi Akureyrar ljósmyndir teknar á filmu og þau tæki, efni og vinnuaðferðir sem þeir beita í aðstöðu félagsins, sem starfað hefur í tvo áratugi í bænum.

Per Landrö, menningarfulltrúi norska sendiráðsins, opnar sýninguna. Daginn eftir, sunnudaginn 29. ágúst kl. 17, mun Ken Opprann halda erindi um list sína í Deiglunni á Akureyri og er aðgangur ókeypis.

Nýjast