Gissur hefur aldrei sungið á Akureyri en hlakkar mikið til, enda hefur hann heyrt af því að þar sé harðasti áheyrendahópur norðan alpafjalla. "Og vita ekki allir best um söng á Akureyri," spurði Gissur. Hlöðver hefur haldið tónleika á Akureyri, m.a. í Ketilhúsinu og hann sagði að Akureyringar vissu hvernig tenórinn á hljóma og því yrðu menn að standa undir nafni.
Valdimar er ættaður úr Höfðahverfi og margir af ættingjum hans búa á Grenivík. Sjálfur bjó hann í 10 ár á Húsavík og hann hóf sinn óperusöngferil í hjá Leikfélagi Akureyrar. Hlöðver er Siglfirðingur, hann lærði söng þar og víðar, í London og Austurríki og endaði svo hjá Kristjáni á Ítalíu líkt og Gissur og Valdimar. Gissur sagðist ekki geta státað af þessari norðlensku tengingu en taldi það ekki koma að sök, þótt hann væri ættaður að vestan og úr Flóanum. "Ég hóf þó mitt söngnám hjá Magnúsi Jónssyni frænda Kristjáns og hann var mjög öflugur. Í kjölfarið fór ég í söngskóla á Ítalíu og eftir það fór ég á flakk til að leita mér að góðum kennara til að slípa það sem hafði lært í skólanum. Á endanum varð svo Kristján fyrir valinu og hann er alveg meiriháttar kennari," sagði Gissur.
Sem fyrr segir verður boðið upp á glæsilega efnisskrá, óperuperlur, hátíðlega tónlist og eitthvað af íslenskri tónlist. Mikill áhugi er fyrir tónleikunum og þegar farið að ræða um aukatónleika.