Hinn þekkti, danski orgelleikari, Bine Bryndorf, mun leika orgeltónlist, hljómsveitin Spilmenn Ríkínís flytur íslensk þjóðlög á gömul íslensk hljóðfæri og Eyþór Ingi Jónsson, organisti Akureyrarkirkju mun ásamt Michael Jóni Clarke vinna með sálmaþema. Á fyrstu tónleikum sumarsins mun stúlknakórinn Graduale Nobili undir stjórn Jóns Stefánssonar syngja íslenskar kórperlur í bland við minna þekkt erlend lög. Sellóleikarinn Ásdís Arnardóttir leikur með kórnum á tónleikunum.
Það má víst fullyrða að stelpurnar í Graduale Nobili hafi komið, séð og sigrað þegar þær stigu fyrst fram á sjónarsviðið í apríl 2001 og héldu fyrstu tónleika sína í Langholtskirkju. Gagnrýnendur kepptust við að lofa kórinn og þegar fyrsta plata kórsins kom út, nokkrum mánuðum síðar, var talað um sjaldheyrða fágun, ótvíræð raddgæði og innlifaðan söng. Þá höfðu stúlkurnar reyndar gert sér lítið fyrir og hreppt önnur verðlaun í Evrópukeppni æskukóra í Kalundborg í Danmörku og þar með skipað sér í röð fremstu æskukóra heims, örfáum mánuðum eftir stofnun.
Sumartónleikar í Akureyrarkirkju hafa verið haldnir frá 1987 og er árið í ár tuttugasta og annað starfsárið. Upphafsmenn tónleikanna voru þau Margrét Bóasdóttir söngkona og Björn Steinar Sólbergsson organisti við Akureyrarkirkju. Tónleikaröðin gekk í tólf farsæl ár undir nafninu Sumartónleikar á Norðurlandi, en frá og með árinu 1999 eru tónleikar aðeins haldnir í Akureyrarkirkju og heitir tónleikaröðin nú Sumartónleikar í Akureyrarkirkju.
Tónleikarnir standa í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.