Þýskur konsertorganisti á sumartónleikum í Akureyrarkirkju

Það er þýski konsertorganistinn Ulrike Northoff sem kemur fram á öðrum tónleikunum í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju, sunnudaginn 11. júlí kl. 17.00. Á efnisskránni eru verk eftir Buxtehude, Bach, Gustav Merkel, Gigout og Dubois.

 
 

Ulrike Northoff nam kirkjutónlist í kirkjutónlistarháskólanum í Esslingen, í nágrenni Stuttgart.  Eftir að hafa lokið prófi þaðan sérhæfði hún sig í orgelleik við kirkjutónlistarháskólann í Heidelberg. Eftir nám sitt hefur hún einbeitt sér að tónleikahaldi, spilað bæði á gömul sögufræg orgel og nútímahljóðfæri á helstu tónleikastöðum Evrópu. Hún hefur einnig komið fram á fjölda tónlistarhátíða og hefur hvarvetna fengið frábæra dóma fyrir flutning sinn. Einnig hefur hún leikið inn á geisladiska.

Auk þess að sinna einleikaraferli sínum hefur Ulrike Northoff tekið þátt í fjölda samspilsverkefna, m.a. í „Organ Plus" tónleikaröðinni þar sem hún hefur spilað með þekktum einleikurum og fengið mikið lof fyrir. Undanfarin ár hefur hún verið tónlistarstjóri kirkjutónlistar í höllinni í Bad Homburg, stutt frá Frankfurt. Þar hefur hún flutt krefjandi orgelverk og haldið marga samleikstónleika með öðrum listamönnum.

Frá árinu 2001 hefur Ulrike Northoff verið listrænn stjórnandi „Musik im Schloss" hátíðarinnar í Bad Homburg, þar sem fjöldi þekktra listamanna hefur komið fram í hinni fallegu kastalakirkju þessa sumardvalarstaðs síðasta þýska keisarans, Wilhelm II. Frá árinu 2006 hefur hún staðið fyrir orgeltónleikaröð í kastalakirkjunni. 

Tónleikarnir í Akureyrarkirkju standa í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Nýjast