Þyrlubjörgunarsveit verði á Akureyri

Níu af tíu þingmönnum í Norðausturkjördæmi og úr öllum flokkum hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þyrlubjörgunarsveit á Akureyri. Fyrsti flutningsmaður er Birkir Jón Jónsson. Þar kemur fram að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að tryggja að Landhelgisgæsla Íslands haldi úti björgunarþyrlu frá Akureyri. Í greinargerð með tillögunni er bent á að á íslenskum fiskimiðum séu veður válynd og þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar er mikilvæg fyrir öryggi sjófarenda. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins séu á Norður- og Austurlandi og mikil útgerð er á svæðinu. "Þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar er þó einungis staðsett á suðvesturhorni landsins og því búa sjófarendur um norðan- og austanvert landið við minna öryggi en aðrir vegna þess hve fjarlæg þyrlubjörgunarsveitin er. Þó að tillaga þessi sé flutt af hópi þingmanna Norðausturkjördæmis ber alls ekki að líta svo á að hún snúist um byggða- eða atvinnumál, heldur er hér fyrst og fremst um öryggismál að ræða sem brýnt er að leyst verði úr hið fyrsta. Margt bendir til að skipaumferð á norðurslóðum aukist til muna á komandi árum í tengslum við minnkandi hafís á siglingaleiðinni um Norður-Íshafsleiðina. Einnig má benda á að miðstöð sjúkraflugs á Íslandi er á Akureyri auk þess sem Sjúkraflutningaskóli Íslands er á Akureyri. Faglega séð ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að byggja upp þyrlubjörgunarsveit á Akureyri. Jafnframt má nefna að þyrlur Landhelgisgæslunnar gegna sívaxandi hlutverki við björgun á landi, t.d. þegar flytja þarf slasað fólk, m.a. frá hálendinu til byggða og undir læknishendur," segir ennfremur í greinargerðinni.

Flutningsmenn auk Birkis Jóns eru; Kristján Þór Júlíusson, Valgerður Sverrisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Þuríður Backman, Ólöf Nordal og Höskuldur Þórhallsson.

Nýjast