"Já sem betur fer tókst að klára þetta fyrir hádegið með samstilltu átaki allra sem að þessu koma þannig að allt gekk upp," segir Sigurður Hermannsson hjá Flugstoðum í samtali við Vikudag. Það mátti þó ekki tæpara standa því nú síðdegis lenti farþegaþota frá Iceland Express á Akureyrarflugvelli.
Það er mikið gleðiefni fyrir alla þá sem að endurbótum á flugvellinum standa því nokkrar tafir urðu á malbikun vegna veðurs um daginn og voru ýmsir farnir að óttast að áætlanaflug myndi raskast meira en vonast hafði verið til í upphafi. Svo fór þó ekki. Sigurður segir að nú séu menn komnir nokkuð fyrir vind hvað þær framkvæmdir varðar sem líklegar eru til að tefja flug, en enn er talsverð vinna eftir við malbikunina. Sú vinna ætti hins vegar ekki að valda töfum eða óþægindum fyrir farþegaflug. Stefnt er að því að klára verkið fyrir mánaðarmótin og telur Sigurður að líkleg verklok erði í kringum 25. eða 26. júlí ef veður verður ekki því erfiðara.