Hrafn Kristjánsson, þjálfari körfuboltaliðs Þórs segir að vissulega séu menn þar á bæ að skoða málin í kjölfar versnandi efnahagsástands í landinu og framundan séu breytingar hjá erlendu leikmönnum liðsins en hverjar þær verði sé óljóst.
Mörg liðanna í Iceland Expressdeild karla í körfubolta eru um þessar mundir að endurskipuleggja sín mál í kjölfar versnandi efnahagsástands í landinu. Þannig hafa Breiðablik, ÍR og Snæfell öll sagt upp samningum sínum við erlendu leikmennina sína, að öllum líkindum vegna óhagstæðrar gengisþróunar.
„Hér eru breytingar framundan eins og hjá öðrum liðum en spurningin er bara hvort að þær snúa eingöngu að breyttum samningum við leikmenn eða þá að einhverjum samningum verður sagt upp er enn óljóst. Ég vil þó sérstaklega taka það fram að við komum til með að halda Cederic Isom áfram,” sagði Hrafn í samtali við Vikudag.