Þór/KA skellti KR fjögur núll á Þórsvelli

Þór/KA lagði KR að velli 4:0 er liðin mættust á Þórsvelli í kvöld í áttundu umferð Pepsi- deildar kvenna í knattspyrnu. Þór/KA átti hreint magnaðan fyrri hálfeik þar sem liðið skoraði öll fjögur mörkin. Vesna Smiljkovic skoraði tvívegis fyrir Þór/KA og þær Mateja Zver og Elva Friðjónsdóttir sitt markið hvor. Það tók Þór/KA sjö mínútur að brjóta ísinn og það gerði Vesna Smiljkovic er hún skoraði af stuttu færi inn í teig eftir sendingu frá Örnu Sif Ásgrímsdóttur.

Þegar svo rétt hálftími var liðinn af leiknum kom ótrúlegur leikkafli hjá norðanstúlkum. Mateja Zver kom Þór/KA í 2:0 á 29. mínútu og aðeins mínútu síðar bætti norðanstúlkur við þriðja markinu. Það kom eftir frábæra sókn sem endaði með marki frá Elvu Friðjónsdóttur. Þórs/KA stúlkur voru ekki hættar og Vesna Smiljkovic skoraði sitt annað mark á 36. mínútu. Þór/KA var svo nálægt því að bæta við fimmta marki sínu í leiknum skömmu síðar er Rakel Hönnudóttir skaut boltanum framhjá eftir sendingu frá Mateju Zver, en Mateja var sjálf kominn í dauðafæri og hefði betur skotið sjálf í stað þess að senda boltann. Besta færi KR í fyrri hálfleik fékk Margrét Þórólfsdóttir er hún skaut boltanum í þverslána ein á móti markverði. Staðan í hálfleik 4:0.

Eftir fjörugan fyrri hálfleik tókst hvorugu liðin að bæta við marki í þeim seinni þrátt fyrir ágætis færi á báða bóga. Lokatölur því 4:0 sigur Þórs/KA, sem með sigrinum eru komið með 16 stig í deildinni en KR hefur 11 stig.

Nýjast