Í leik Þórs og Njarðvíkur byrjuðu heimamenn leikinn af krafti og strax á 1. mínútu leiksins fékk Jóhann Helgi Hannesson fínt færi en skot hans inn í teig gestanna var slakt og Ingvar Jónsson í marki Njarðvíkur átti ekki í vandræðum með að verja. Tveimur mínútum síðar átti Atli Jens Albertsson fínan skalla að marki gestanna en aftur var Ingvar vel á verði í marki gestanna.
Njarðvík fór að komast meira inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn en náði þó lítið að ógna marki Þórs. Á 30. mínútu fékk Sveinn Elías Jónsson dauðafæri fyrir Þór er hann slapp inn fyrir vörn gestanna, en skot hans af stuttu færi var beint á Ingvar í marki gestanna. Sveinn Elías gerði hins var enginn mistök þremur mínútum síðar. Hann fékk þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Njarðvíkur frá Jóhanni Helga Hannessyni og afgreiddi boltann örugglega í hægra hornið. Staðan 1:0 fyrir Þór og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Sveinn Elías kom Þór í 2:0 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik með flottu marki. Ármann Pétur Ævarsson átti þá góða sendingu inn á Svein Elías sem vippaði boltanum glæsilega í netið yfir Ingvar í marki Njarðvíkur. Ármann Pétur bætti svo sjálfur við þriðja marki Þórs í leiknum með skoti af stuttu færi á 62. mínútu, eftir sendingu frá Jóhanni Helga Hannessyni. Staðan orðin 3:0 fyrir Þór.
Þór hélt áfram að sækja að marki Njarðvíkur. Nenad Zivanovic fékk dauðafæri til þess að skora fjórða mark Þórs í leiknum á 74. mínútu, er hann slapp einn inn fyrir vörn gestanna en Ingvar Jónsson varði með tilþrifum í marki Njarðvíkur. Skömmu áður hafði Nenad skotið boltanum yfir markið úr úrvalsfæri. Það var svo varamaðurinn Ottó Hólm Reynisson sem skoraði fjórða og síðasta mark Þórs í leiknum á 93. mínútu. Lokatölur 4:0 og fyrsti sigur Þórs á tímabilinu staðreynd.
Eftir þrjár umferðir hafa bæði Þór og KA fjögur stig í deildinni.