Þór skoraði sex mörk á Þórsvelli-Hrakfarir KA halda áfram

Tveir leikir fóru fram á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Á Þórsvelli héldu heimamenn í Þór sigurgöngu sinni áfram er þeir lögðu HK 6:3 að velli. Ármann Pétur Ævarsson og Aleksandar Linta skoruðu tvívegis fyrir Þór í leiknum og Sigurður Marínó Kristjánsson eitt mark en eitt markanna var sjálfsmark HK. Mörk HK- manna skoruðu Hörður Árnason, Jónas Grani Garðarson og Hólmbert Aron Friðjónsson. Á sama tíma tapaði KA gegn Víkingi R. 0:2 á Víkingsvelli, þar sem Helgi Sigurðsson skoraði bæði mörk heimamanna. Hrakfarir KA í deildinni halda því áfram og er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig en Þór er komið með 21 stig í þriðja sætinu.  

Leikurinn á Þórsvelli hófst með látum. Fyrsta markið kom strax á fyrstu mínútunni en það var einkar klunnalegt sjálfsmark markvarðar HK- manna, Ögmundar Ólafssonar. Aleksandar Linta kom Þór í 2:0 á 5. mínútu með marki úr vítaspyrnu og staðan vænleg fyrir heimamenn. Hörður Árnason minnkaði muninn fyrir HK með stórglæsilegu marki á 33. mínútu er hann skoraði með þrumufleyg fyrir utan vítateig, algjörlega óverjandi fyrir Björn Hákon Sveinsson í marki Þórs. Ármann Pétur Ævarsson jók forystu Þórs í tvö mörk á ný er hann skoraði þriðja mark liðsins á lokamínútu fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 3:1 heimamönnum í vil. 

Jónas Grani Garðarsson minnkaði muninn fyrir HK í 3:2 á 56. mínútu með marki af stuttu færi inn í teig. Tíu mínútum síðar skoraði Ármann Pétur sitt annað mark í leiknum og fjórða mark Þórs og heimamenn aftur komnir með tveggja marka forystu. Mörkin héldu áfram að rigna inn á Þórsvelli og Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði þriðja mark HK eftir flotta skyndisókn tólf mínútum fyrir leikslok, en Þórsarar höfðu á þessum tímapunkti verið mun sterkari aðilinn. Staðan 4:3 og HK- menn vel inn í leiknum. Sveinn Elías Jónsson var nálægt því að skora fimmta mark Þórs skömmu síðar er hann fékk frítt skotinn í teig eftir góðan undirbúning frá Gísla Páli Helgasyni en Ögmundur gerði vel í marki HK með að verja.

Þórsarar gerðu svo út um leikinn á tveggja mínútna kafla undir lok leiksins með tveimur mörkum. Sigurður Marinó Kristjánsson skoraði af harðfylgi á 89. mínútu og Aleksandar Linta skoraði úr sínu öðru víti í leiknum skömmu síðar. Lokataölur á Þórsvelli, 6:3 sigur Þórs.

Nýjast