Þór og ÍR skildu jöfn á Þórsvelli

Þór og ÍR gerðu 2:2 jafntefli á Þórsvelli í dag á Íslandsmótinu í knattspyrnu í 1. deild karla. ÍR komst í 2:0 í fyrri hálfleik en heimamenn náðu að jafna metin í þeim seinni. Það voru þeir Aleksandar Linta og Jóhann Helgi Hannesson sem skoruðu mörk Þórs í leiknum en Árni Freyr Guðnason og Kristján Ari Eldjárnsson skoruðu mörk ÍR. Þar með er Þór komið með 15 stig í þriðja sæti deildarinnar, en ÍR hefur 17 stig í efsta sæti.

Fyrsta mark leiksins kom eftir ellefu mínútna leik. ÍR fékk þá aukaspyrnu af 25-30 m færi og Árni Freyr Guðnason skoraði beint úr spyrnunni með hörkuskoti og staðan orðin 1:0 fyrir gestina. Sex mínútum síðar var Jóhann Helgi Hannesson nálægt því að jafna metin fyrir Þór er hann fékk boltann rétt utan vítateigs og lék á markvörð ÍR, en skot hans var varið af varnarmanni gestanna.ÍR- ingar komust svo tveimur mörkum yfir á 25. mínútu. Kristján Ari Eldjárnsson fékk þá glæsilega stungusendingu inn fyrir vörn Þórs og lék á Björn Hákon Sveinsson í marki heimamanna og skoraði í autt markið. Einkar vel útfærð skyndisókn hjá ÍR sem höfðu 2:0 forystu í hálfleik.

Seinni hálfleikur leiksins fór að stærstum hluta fram á vallarhelmingi ÍR, þar sem heimamenn í Þór reyndu hvað þeir gátu til þess að minnka muninn. Þó að heimamenn hafi verið mun meira með boltann virtist það ekki ætla að skila miklu framan af, þar sem sóknaraðgerðir Þórs voru fremur máttlausar og liðinu tókst illa að skapa sér færi.

Á 77. mínútu varð hins vegar vendipunktur í leiknum þegar Atli Sigurjónsson fiskaði vítaspyrnu er Þorsteinn Einarsson markvörður ÍR felldi hann inn í vítateig. Aleksandar Linta fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi og minnkaði muninn í eitt mark. Aðeins tveimur mínútum síðar tókst heimamönnum að jafna metin. Aftur var það Atli Sigurjónsson sem var arkitektinn af því marki er hann sendi boltann fyrir markið og þar var Jóhann Helgi Hannesson einn á auðum sjó og skoraði af stuttu færi.

Þórsarar fengu nokkur úrvalsfæri til þess að tryggja sér sigurinn á lokamínútum leiksins en höfðu ekki heppnina með sér og lokatölur á Þórsvelli, 2:2.  

Nýjast