Þjónustu og ráðgjafasetrið Virkið grípur ungmenni sem falla milli kerfa

Helga Bergrún Sigurbjörnsdóttir og Orri Stefánsson starfa hjá Virkinu   Mynd Virkið
Helga Bergrún Sigurbjörnsdóttir og Orri Stefánsson starfa hjá Virkinu Mynd Virkið

 „Við finnum fyrir því eftir heimsfaraldurinn,  að æ fleiri þurfa á stuðningi að halda til að komast af stað út í lífið á ný og á það bæði við um þá sem leita að atvinnu og eða námi.  Andleg heilsa er vaxandi vandamál í samfélaginu er því mikilvægt að bregðast við með markvissum hætti og sterku stuðningsneti. Það er okkar hlutverk að styðja þau og aðstoða við að finna réttar leiðir og lausnir að því markmiðið að verða virkir þátttakendur í þjóðfélaginu á nýjan leik,“ segja þau Orri Stefánsson og Helga Bergrún Sigurbjörnsdóttir sem starfa hjá Virkinu á Akureyri.

Virkið er þjónustu- og ráðgjafasetur sem hefur það meginmarkmið að grípa ungmenni sem falla milli kerfa og veita þeim heildstæða þjónustu. Boðið er upp á einstaklingamiðaða ráðgjöf sem miðar að því að bæta líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu, en horft er til aldurshópsins 16 til 30 ára. „Við veitum þeim sem á þurfa að halda samfellda þjónustu m.a. vegna atvinnuleitar, skólagöngu, endurhæfingar eða annarrar meðferðar,“ segja þau Helga Bergrún og Orri.

Bæta þjónustu við fólk á krossgötum

Virkið er samstarfavettvangur með þátttöku fjórtán aðila á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu. „Það má segja að Virkið sé eins konar þjónustuborð fyrir Eyjafjarðarsvæðið með hagsmuni þessa aldurshóps að leiðarljósi. Okkar markmið er að bæta þjónustu við ungt fólk sem er á krossgötum í lífinu sínu m.a. með því að auðvelda þeim aðgengi að þjónustu, veita snemmtæka íhlutun, minnka líkur á að fólk falli á milli kerfa, samþætta þjónustu og úrræði og að auðvelda tilvísunaraðilum að koma málum í réttan farveg og búa til úrræði sem kemur fólki í virkni,“ segja þau.

Margt er í boði hjá Virkinu. Opnir tímar eru frá mánudegi til fimmtudags eftir hádegi þar sem í boði er aðstoð við gerð ferilsskrár og umsóknir um nám og annað slíkt. Einnig er í boði sérfræðiþjónusta, þar sem félagsráðgjafar koma og bjóða upp á viðtöl en líka er hægt að fá leiðbeiningar og stuðning við verkefni sem tengjast Erasmus styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs,- og íþróttamál.

Styrkja fólk í atvinnuleit

„Við höfum boðið upp á 6 vikna námskeið með fjölbreyttri dagskrá þar sem áhersla er lögð á fyrirlestra og stutt námskeið sem styrkir fólk í atvinnuleit og eykur tækifæri þess úti á vinnumarkaði. Við munum einnig kynna fyrirtæki og ýmis konar stofnanir sem opna möguleika á menntun og þekkingu. Á þeim námskeiðum sem við erum með á vorönn er lokamarkmiðið að þátttakendur komist í sumarstörf í framhaldi af námskeiðinu. Við einbeitum okkur að því að finna störf sem hentar hverjum og einum,“ segja þau Orri og Helga Bergrún.

Stærsti hluti þátttakanda í Virkinu eru einstaklingar sem þegið hafa þjónustu hjá Vinnumálastofnun og Velferðarsviði Akureyrarbæjar, en einnig hefur verið gott samstarf við Fjölmiðjuna á Akureyri. „Við höfum líka fengið til okkar ungmenni sem hafa hætt námi og eru að leita eftir aðstoð við næstu skref í lífinu,“ segja þau.

 

 


Athugasemdir

Nýjast