Þjónusta barna- og unglingageðteymis SAk efld tímabundið

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd úr safni.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd úr safni.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 13 milljónum króna til að efla tímabundið þjónustu barna- og unglingageðteymis Sjúkrahússins á Akureyri. Heilbrigðisráðherra hefur áður ráðstafað 102 milljónum króna í tiltekin átaksverkefni hjá Landspítala sem miða að því að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk og stytta bið eftir greiningu og meðferð. Fyrir liggur að heimsfaraldur Covid-19 hefur skapað ýmis vandkvæði við veitingu þessarar mikilvægu þjónustu, samhliða því að eftirspurn eftir tilteknum þáttum geðheilbrigðisþjónustu hefur aukist. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Barna- og unglingageðteymi Sjúkrahússins á Akureyri (BUG) hefur starfað frá vorinu 2014. Á þjónustusvæði þess eru skráð tæplega 11.000 börn, sem eru um 14% allra barna og ungmenna á landinu. BUG teymið sinnir bráða- og göngudeildarþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra og sýna skýrslur að innlögnum á Barna- og unglingageðdeild Landspítala af þjónustusvæði teymisins hefur fækkað töluvert með tilkomu þess.


Nýjast