Þing Landssambands íslenskra verslunarmanna á Akureyri

Þing Landssambands íslenskra verslunarmanna, LÍV, verður haldið á Hótel KEA á Akureyri á morgun föstudag og á laugardag. Rúmlega 70 fulltrúar, alls staðar af landinu, sitja þingið.  

Þetta er seinni hluti þingsins en fyrri hlutinn var haldinn í Reykjavík 2. nóvember 2007 og fjallaði aðeins um kjara- og efnahagsmál. Aðalmálefni þingsins verða kjara- og efnahagsmál svo og breytingar á lögum sambandsins.  Forsendur kjarasamninga eru brostnar og mun þingið fjalla um verkefni vetrarins, sem er að leita leiða til að verja kjör félagsmanna.

LÍV vill benda sérstaklega á eftirfarandi erindi, sem flutt verða eftir hádegi á morgun föstudag:

„Traust - grundvöllur samninga" Aðalsteinn Leifsson, lektor og forstöðumaður MBA náms í Háskólanum í Reykjavík.

„Kreppa eða ekki kreppa? - Staða og horfur í efnahagsmálum" Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans.

„Gamanið kárnar - Staða og horfur í kjaramálum" Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ.

Í LÍV eru 14 verslunarmannafélög og deildir verslunarmanna víðs vegar á landinu með rúmlega 32.000 fullgilda félagsmenn en þar af er VR langstærst.

Nýjast