Um borð voru um 2700 ferðamenn og segir Berþór að um 55-60% farþeganna fari í skoðunarferðir með félaginu, í Mývatnssveit, að Goðafossi og í Laufás svo eitthvað sé nefnt. Hann segir að oft fari hærra hlutfall farþega í skoðunarferðir en nú eða allt að 70% þeirra. „Við þurfum 33 rútur fyrir farþegana," segir hann. Fyrirtækið hefur yfir að ráða alls 58 bílum af ýmsum stærðum og gerðum, en sumir þeirra er nú fastir í öðrum verkefnum, t.d. með hópa á ferð um landið. Bergþór segir það hjálpa til nú að skipið hafði nokkuð langa viðveru á Akureyri, eða frá kl. 9 til 18 og því sé að einhverju leyti hægt að tvínýta hluta bílaflotans og leiðsögumenn. Fyrirtækið fær lánaðar rútur úr nágrannasveitarfélögum þegar stórir dagar koma upp og þá er iðulega gripið til þess að ferja bíla á milli staða.
„Ég held að þetta sumar verði óvenjulegt í ferðaþjónustunni" segir Bergþór. Það hafi byrjað með eldgosi og tilheyrandi afbókunum en síðan tók við markaðsátak sem á þessari stundu sé ekki vitað hverju muni skila. Þá hafi dunið yfir fleiri áföll, frestun Landsmóts hestamanna í Skagafirði vegna sýkingar í hrossum sem hefur neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í fjórðungnum og eins hafi áætlunarflugi milli Akureyrar og London verið aflýst. „Það er ýmsir neikvæðir þættir sem greinilega munu hafa áhrif, en við verður bara að vona að markaðsátakið skili tilætluðum árangri og nýir ferðalangar komi til landsins og fylli upp í þau göt sem hafa myndast," segir Berþór.