"Við gerðum grein fyrir því hvernig þróunin hefur verið varðandi fækkun hjúkrunarrýma á Akureyri undanfarin ár. Við mættum ákveðnum skilningi, hljóðið var þannig að ég hef ákveðnar væntingar um að eitthvað af þessu muni ganga til baka og ráðherra lokaði ekki á eitt eða neitt. Viðræður munu halda áfram næstu sólarhringa, þar sem vinna við fjárlagafrumvarpið er á lokasprettinum. Ég er bjartsýnn en við verðum að sjá hver niðurstaðan verður," sagði Eiríkur.
Fyrir fundinn fékk heilbrigðisráðherra í hendur undirskriftalista með nöfnun tæplega 6.000 Akureyringa og nærsveitarmanna, þar sem fyrirhugaðri fækkun hjúkrunarrýma er mótmælt. Að auki hafa um 550 einstaklingar skrifað undir mótmæli á sérstakri facebooksíðu. Eiríkur bæjarstjóri fékk undirskriftalistana afhenta sl. þriðjudag og hann sagði við það tækiæri að væri mjög mikilvægt að geta farið á fund heilbrigðisráðherra með þann gríðarlega stuðning sem fólgin er í undirskriftalistunum.
Að undirskriftasöfnuninni stóðu starfsfólk ÖA, aðstandendur við Hlíð og fleiri. Aðstandendur ætla ekki að láta þar við sitja, því stofnfundur Félags aðstandenda við Hlíð verður haldinn á Hlíð þriðjudaginn 23. nóvember kl. 17.00.