„Þetta eru sannarlega jákvæðar forvarnir til framtíðar“

Elvar Bragason og Harpa Steingrímsdóttir á Jólatónleikum Tónasmiðjunnar. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsso…
Elvar Bragason og Harpa Steingrímsdóttir á Jólatónleikum Tónasmiðjunnar. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson.

Tónasmiðjan á Húsavík hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf undanfarin ár en Elvar Bragason á veg og vanda að því starfi. Hann setti Tónasmiðjuna á fót árið 2017 ásamt Hörpu Steingrímsdóttur. Vikublaðið tók Elvar tali á dögunum þar sem hann sagði frá starfinu og hvað sé fram undan.

Tónasmiðjan á sér þó lengri sögu sem spannar 17 ár. „Samfellt hef ég starfað með Tónasmiðjuna í 17 ár, bæði á Húsavík og í Kópavogi. Í tengslum við hana hef ég hjálpað og unnið með fjölmörgum ungmennum og einstaklingum á ýmsum aldri,“ segir Elvar.

Hann heldur einnig úti forvarnar- og fræðslustarfi undir heitinu ÞÚ skiptir máli sem heldur utan um starf Tónasmiðjunnar, heldur út heimsíðu ásamt fleiri verkefnum. „Núna á þrettándanum gáfum við t.d. endurskinsmerki til allra nemenda í Borgarhólsskóla á Húsavík,“ segir Elvar.

Gefandi félagsskapur

Tónasmiðjan

Tónasmiðjan er skapandi starf fyrir ungt fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á tónlist, menningu og tómstundum. „Þetta er gefandi starf fyrir öll sem hafa  áhuga á að vinna saman í hóp, einstaklingsmiðað og skapa saman eitthvað lifandi og skemmtilegt. Þar vinnum við með hópa og setjum upp tónleikasýningar, þar sem allir hafa hlutverk og finna það að þau skipta máli, hvort sem þeir eru að spila á hljóðfæri eða syngja,“ segir Elvar og bætir við að úrval landþekktra tónlistarmanna og kvenna hafi tekið þátt í tónleikasýningum Tónasmiðjunnar og gefið vinnu sína.

„Það er frábært að fylgjast með ungum einstaklingum frá því þegar þeir koma á sína fyrstu æfingu og standa svo fyrir framan 200 manns á sýningum og syngja einsöng eða spila í hljómsveitinni eins og þau hafa aldrei gert neitt annað. Þetta eru sannarlega jákvæðar forvarnir til framtíðar,“ segir Elvar.

 Fólk á öllum aldri

Elvar segir að ótrúlegur fjöldi fólks hafi æft og komið fram undir merkjum Tónasmiðjunnar í gegnum tíðina. Fólk á öllum aldri. „Í hverjum hópi hjá okkur eru ca. 30-40 manns á ýmsum aldri , allt frá 7 ára upp í sjötugt eða þar um bil.  „Það er svo frábært að sjá að unga fólkið er að læra mikið af þeim eldri og öfugt. Allir vinna saman að því markmiði að gera komandi sýningu sem glæsilegasta,“ útskýrir Elvar og bætir við að öll séu velkomin að taka þátt í starfi Tónasmiðjunnar.

„Starfið er sannarlega fyrir öll sem hafa áhuga á tónlist og vilja vera með. Það er vissulega gott að hafa smá grunn í tónlist, en ekki nauðsynlegt. Bara hafa samband við okkur og er þátttaka öllum að kostnaðarlausu,“ segir hann.

 Stanslaus verkefni

Tónasmiðjan hefur verið áberandi síðustu ár og tekið þátt í fleiri verkefnum svo eftir sé tekið. Elvar segir að Tónasmiðjan hafi staðið fyrir fjölmörgum stórum og smáum verkefnum á síðasta ári sem og önnur ár.   „Við erum afar þakklát fyrir þá viðurkenningu, þann stuðning og það hrós sem starfið okkar hefur fengið fyrir okkar sýningar og metnaðarfullt starf á undanförnum árum.“

Tónasmiðjan jólatré

 Láta gott af sér leiða

Það verður heldur ekki af þeim tekið í Tónasmiðjunni að þau hafa heldur betur látið gott af sér leiða. Fjölmörg góðgerða- og félagasamtök hafa fengið myndarlega styrki frá Tónasmiðjunni en allur ágóði af tónleikasýningum þeirra rennur til góðgerðamála.

Árlega höldum við þrjár stórar sýningar, vor, haust og svo jólasýningu. Á síðast liðnum fimm árum höfum styrkt góð málefni um rúmlega 4 milljónir alls. Á sl. ári styrktum við Ljósið, Krabbameinsfélag Þingeyinga, Píeta samtökin og Velferðarsjóð Þingeyinga um samtals 1200 þúsund krónur og erum við afar stolt af því,“ segir Elvar og bætir við að nýja árið sé þegar farið að geta af sér ný verkefni.

Við byrjuðum nýtt ár af sama krafti og við höfum unnið allt sl. ár og lokuðum jólunum með stæl , þar sem við tróðum upp á þrettaándagleði Norðurþings, héldum smá tónleika og komum fólkinu í stuð,“ segir Elvar og bætir við að árið stefni í að verða fjölbreytt og skemmtilegt sem endranær.

Það sem er fram undan núna á komandi ári er m.a. sýning sem hefur fengið nafnið HETJUR. Þar ætlum við að ROKKA til styrktar langveikum börnum og styrkja Umhyggju félag langveikra barna. Við byrjum formlega á því verkefni núna 17. janúar nk. og er strax kominn flottur hópur þar, sem ætla að vinna saman að þeirri sýningu sem verður haldin í maí,“ segir Elvar Bragason að lokum.


Athugasemdir

Nýjast