Í uppfærslu LA koma fram margir af bestu söngvurum og leikurum landsins ásamt mögnuðum Geimverukór og Rocky Horror-bandinu. Jón Gunnar Þórðarson, leikstjóri, segir að þetta verk sé rokkaðsti söngleikur í heimi. “Þetta er cult verk sem margir halda uppá, bæði gamla verkið og bíómyndina frá árinu 1975. Þetta er súrrealískt verk með skemmtilegum karakterum sem halda verkinu uppi. Maður getur lofað miklu fjöri út í gegn en í verkinu er leikur, söngur og dans, sprengingar, flug og mikill hraði, þannig að þetta verk hefur allt.
Áhorfendur mega taka þátt
Jón Gunnar segir að æfingar hafi gengið vel og nú sé verið að slípa hlutina og læra á húsið. “Það er alveg kominn tími til fyrir hópinn að fá að sýna þetta verk, enda er þetta mikil áhorfendasýning. Það eiga allir að skemmta sér vel á Rocky Horror, áhorfendur mega klappa með í lögunum, blístra og kalla og mæta í korseletti ef þeir vilja. Slíkt þekkist vel á sýningum erlendis og það er líka í boði hér.”Jón Gunnar segir að nú þegar sé búið að slá aðsóknarmetið í forsölu, met sem var sett þegar verkið Fló á skinni var sett upp. Fyrir frumsýningu, er orðið uppselt á 10 sýningar, sem þýðir að seldir hafa verið yfir 5.000 miðar. Það er því greinilega mikill áhugi fyrir sýningunni. “Kjörorð sýningarinnar er; Dreymdu ekki – vertu, sem er setning sem Frank N. Further notar í sýningunni og allir endurtaka. Það er boðskapur sýningarinnar, að láta drauma sína rætast. Og Leikfélag Akureyrar er í raun lítið leikhús en með stórt hjarta og það sést vel á þessari sýningu,” segir Jón Gunnar.
Með helstu hlutverk í sýningunni fara: Frank N. Furter: Magnús Jónsson, Riff Raff: Eyþór Ingi
Gunnlaugsson, Magenta: Bryndís Ásmundsdóttir, Kolumbía: Andrea Gylfadóttir, Brad: Atli
Þór Albertsson, Janet: Jana María Guðmundsdóttir, sögumaður og Dr. Scott: Guðmundur
Ólafsson, Rocky: Hjalti Rúnar Jónsson,
Eddie: Matthías Matthíasson. Hljómsveitina skipa: Hallgrímur J. Ingvarsson, Halldór Gunnlaugur Hauksson, Stefán Daði
Ingólfsson og Árni Heiðar Karlsson.