„Þetta búið að vera tóm upplifun og skemmtilegheit

Sigurgeir fer yfir sögu klúbbsins. Mynd/epe
Sigurgeir fer yfir sögu klúbbsins. Mynd/epe

Kiwanis klúbburinn Skjálfandi  á Húsavík hélt upp á 50 ára afmæli sitt á sunnudaginn 24. mars sl. Sigurgeir Aðalgeirsson hefur verið í klúbbnum frá stofnun og fór hann yfir sögu klúbbsins í 50 ár, þá voru félagar heiðraðir með 25 - 35 - 40 og 50 ára starfsaldurs merkjum.

 Umdæmisstjóri Björn Bergmann ávarpaði samkomuna, þá voru þrír félagar heiðraðir vegna 40 - 60 og 70 ára afmæla á síðasta ári með silfur- gull- og rúbín stjörnum, að því búnu sagði Einar Valsson frá styrkveitingum og afhenti Bjsv. Garðari styrk upp á Kr. 5.000.000,- til reksturs nýja björgunarbátsins Villa Páls og samtökunum Einstök Börn Kr. 500.000,- þá flutti Guðrún Helga frakv.stjóri Einstakra Barna smá kynningu samtakanna, þá tóku til máls Birgir Þór formaður Lions klúbbs Húsavíkur, Eysteinn Kristjáns fulltrúi Bjsv. Garðars og Katrín Sigurjónsdóttir Sveitarstjóri Norðurþings, að því búnu sleit Björn Viðar forseti afmælisfundinum og bauð upp á kaffi veitingar.

 Sjáfboðaliði í 50 ár

heiðraðir

Félagar heiðraðir með 25 - 35 - 40 og 50 ára starfsaldurs merkjum. Frá vinstri: Einar Valsson, Ingi Sveinbjörnsson, Björn Viðar, Egill Olgeirsson, Sigurgeir Aðalgeirsson, Björn Bergmann. Mynd/epe

 

Vikublaðið ræddi við Sigurgeir sem hefur eins og áður segir var heiðraður fyrir 50 ár í Kiwanisklúbbnum Skjálfanda. Í hálfa öld hefur Sigurgeir gefið af frítíma sínum til samfélagsins sem hann býr í og verður fórnfýsi hans seint þökkuð að fullu, enda er það svo langt frá því að vera sjálfsagður hlutur að fólk eyði orku og frítíma til sjálfboðastarfa, hvað þá í 50 ár.

Sigurgeir segir að fyrir 50 árum hafi verið mjög góð stemning á Húsavík fyrir sjálfbolaðilastarfi af þessu tagi. Menn hafi verið tilbúnir til að leggja ýmislegt á sig samfélaginu sínu til heilla.

Sigurgeir var ekki nema rétt skriðinn í tvítugt þegar bankað var upp á á heimili hans  í Bala á Húsavík og honum boðin þátttaka  í undirbúningi að stofnun Kiwanisklúbbs á Húsavík. Þetta var um miðjan desember 1973.

„Það var nú bara í útidyrahurðinni heima í Bala. Ég sagðist vera til í að hugsa málið en hafði auðvitað ekki hugmynd um hvað Kiwanis var á þessum tíma. Ég vissi aðeins um Lions af því pabbi gamli var kominn í Lions og Bjarni bróðir en þeir höfðu aldrei boðið mér að koma með enda var ég bara rétt kominn úr skóla,“ segir Sigurgeir um þennan örlagaríka dag.

Í janúar var búið að safna saman 20 félögum sem nægði til að stofna klúbb í aðlögun. „Á fundi 24. mars 1974 kom fram að Kiwanisklúbburinn Skjálfandi væri búinn að ná öllum þeim markmiðum sem klúbbnum er ætlað til að öðlast fullgildingu. 24. mars er því stofndagur klúbbsins, á þessum fundi var samþykkt að efna til veglegrar Vígsluhátíðar 15. júni 1974 þar sem Kiwanisklúbburinn Skjálfandi öðlaðist fullgildingu,“ útskýrir Sigurgeir. 

 Ungir menn með samfélagið í hjartanu

Sigurgeir segir að þetta hafi mikið til verið ungir menn sem komu að stofnun klúbbsins og ekkert þótt athugavert við að tvítugur strákur væri að taka þátt í svona starfi. „Stebbi Ben var náttúrlega frumkvöðull í þessu með bókaranum sínum frá Dalvík, Hilmari Dan sem var í klúbbnum þar. Þeir ýttu þessu af stað ásamt Dodda Ásgeirs og fleirum. Svo voru þarna strákar sem komu inn á þennan stofnfund eins og Stebbi Stebba sem er ári yngri en ég og fleiri slíkir. Þetta var mikið til bara menn á milli tvítugs og þrítugs,“ segir hann.

Blaðamaður skítur þá inn hvort þetta teldist ekki óvenjulegt nú til dags að fá svona stóran hóp af ungu fólki í sjálfboðastarf af þessu tagi. Sigurgeir tekur heilshugar undir það og viðurkennir að það hafi verið áskorun undan farin ár að fá inn nýja félaga.

„Þetta virðist bara vera þannig að fólk er ekki tilbúið til að gefa þetta mikið af sér fyrr en þá kannski þegar það er orðið 45-50  ára og er farið vanta einhverja afþreyingu, það er helst þannig. Það er búið að vera mjög erfitt í mörg ár að ná inn nýjum félögum. Við náðum einum inn í vetur en ég man ekki hvað það er langt síðan við fengum nýjan félaga síðast, það eru einhver 3-4 ár síðan,“ segir Sigurgeir og bætir við að þegar mest hafi verið þá fór Kiwanisklúbburinn Skjálfandi í 32 meðlimi. „Við vorum mjög lengi um 26-28 en svo hefur þetta farið fækkandi. Bæði hafa menn flutt í burtu og svo hafa menn komið inn í klúbbinn og stoppað stutt.“

 Fjölbreytt verkefni í gegn um tíðina

Verkefnin segir Sigurgeir hafa verið bæði fjölbreytt og mörg í gegn um tíðina. Áður fyrr hafi t.d. verið gert mikið af því að ganga í hús í tengslum við fjáraflanir. „Svo tókum við að okkur áramótabrennuna í þónokkur ár og þar fram eftir götununum. Svo höfum við náttúrlega tekið þátt í landsverkefnum og heimsfjáröflunum,“ segir Sigurgeir og bætir við að flugeldasalan sé auðvitað búin að vera stærsta fjáröflunarverkefni klúbbsins árum saman.

Þarf að vera tilbúinn að leggja mikið á sig

Afmæli Kiwqanis

Fjöldi fólks kom saman til að fagna 50 ára afmæli Kiwanisklúbbsins Skjálfanda á sunnudag. Mynd/epe.

 

„Þetta búið að vera tóm upplifun og skemmtilegheit,“ segir Sigurgeir og bætir við að mikilvægt sé að menn séu tilbúnir í þau verkefni sem fylgja klúbbstarfinu, bæði hér heima og á landsvísu. „Að menn séu ekki bara að koma saman á fundi hér heima og tala eitthvað saman og taka ákvarðanir innan félagsins sjálfs. Liður í þessu er að fara á Svæðisráðsfundi og hitta félaga úr klúbbunum hér í kring og svo er að fara á umdæmisþing og hitta félaga úr öllum félögum á landinu og í Færeyjum og taka virkan þátt ef mönnum býðst og gengið sé eftir því að þeir komi kannski í einhver embætti hjá umdæminu. Þá stækkar þessi félagslegi þáttur og heimur í kringum hann svo mikið,“ útskýrir Sigurgeri sem er hefur svo sannarlega ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum enda starfað í nefndum hjá umdæminu eins og fjölgunarnefnd og í eitt sinn undirbjó hann landsþingið sem haldið var á Hótel Sögu

„Ég fékk bara strákana hér á Húsavík með mér. Þá höfðu menn fyrir sunnan áhyggjur af  því hvort við gætum sinnt þessu héðan frá Húsavík. Ég var með Binna Halldórs og Gunnar Bergsteins með mér.“ Þeir félagarnir fóru þá suður á miðvikudegi og undirbjuggu þingið sem haldið var á föstudegi og laugardegi og voru ekki í vandræðum með það.

Gasðrar styrktir

Afmælinu var meðal annars fagnað með styrkveitingum. Björgunarsveitin Garðar fékk styrk upp á Kr. 5.000.000,- til reksturs nýja björgunarbátsins Villa Páls og Samtöin Einstök Börn Kr. 500.000. Björn Viðar, Birgir Mikaelssons, formaður Garðars, Hermína Hreiðarsdóttir og Guðrún Helga frá Einstökum börnum. Mynd/epe. 

 

 Kynntist upprunanum

„Svo var gengið á eftir mér 2001 að fara í umdæmisstjórann sem var stór ákvörðun sem ég svo gerði. Aðal áskorunin þar var hvað ég er lélegur í tungumálum. Þetta þýddi 13 utanlandsferðir,  Evrópustjórnarfundir, tvö Evrópuþing, tvö heimsþing og þrisvar heimsstjórnarfundi sem voru þá í Bandaríkjunum. Þá kynntist maður náttúrlega höfuðstöðvunum og upprunanum. Og náttúrlega Kiwanisfólki með allt aðra ásýnd og áherslur í öðrum þjóðlöndum,“ segir Sigurgeir og bætir við að þetta sé búið að vera gífurlega gefandi.

 Snortinn á Þorláksmessu

 Aðspurður hvað standi helst upp úr svarar Sigurgeir að það sé félagsskapurinn og fólkið sem starfar í þessu. „Að vinna með góðu, jákvæðu og skemmtilegu fólki sem vill gera þessa hluti og leggja eitthvað af mörkum fyrir samfélagið sem það býr í,“ segir hann og bætir við að stærstu stundirnar séu jafnframt þær erfiðustu.

„Það var þegar maður fór oft  seinnipartinn á Þorláksmessu og bankaði upp á hjá fjölskyldum með veik börn til að afhenda þeim einhverja peningaupphæð í umslagi með jólakorti. Ég fór margar svona ferðir og það voru klárlega erfiðustu en á sama tíma ánægjulegustu stundirnar. Foreldrar tóku jafnvel grátandi utan um mann bæði yfir undrun yfir því að munað hafi verið eftir þeim og tillitsseminni. Þetta er svona það sem situr mest eftir í manni og eru minnisstæðir hlutir. Maður fann fyrir óendanlegu þakklæti,- að akkúrat þau hefðu orðið fyrir valinu. Þetta var alltaf rosalega sterkt,“ segir Sigurgeir að lokum.

kaka kiwanis


Athugasemdir

Nýjast