Tenór og gítar á hádegis- tónleikum í Ketilhúsinu

Benedikt Kristjánsson tenór og Sergio Coto-Blanco gítarleikari flytja ljóðaflokkinn "Songs from the Chinese" eftir Benjamin Britten ásamt ýmsum þjóðlagaútsetningum og verkum eftir John Dowland og Franz Schubert á hádegistónleikum í Ketilhúsinu á Akureyri í dag, föstudaginn 23. júlí kl. 12.00.  

Benedikt Kristjánsson er fæddur á Húsavík árið 1987. Hann hóf söngnám 16 ára gamall, fyrst við Söngskólann í Reykjavík, en síðar Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Margrétar Bóasdóttur. Benedikt söng í kórum Menntaskólans við Hamrahlíð í rúm 6 ár og söng einsöng í tónleikaferðum til Þýskalands, Kanada, Danmerkur og Kína. Hann tók þátt í meistarnámskeiði á Bach-Woche í Stuttgart árið 2007 og söng hlutverk Guðspjallamannsins í Johannesarpassíu Heinrich Schütz í Heidelberg í apríl 2008. Hann var einsöngvari í As-dúr messu Schuberts sem flutt var á Kórastefnu við Mývatn 2009. Hann stundar nú nám hjá Scot Weir prófessor við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín í Þýskalandi.

Sergio Coto-Blanco er fæddur 1985 í Costa Rica og hóf gítarnám 12 ára gamall við Universidad de Costa Rica. Hann stundaði nám í tónsmíðum hjá Otto Castro prófessor við AkademiArteKorum í Costa Rica og árið 2005 frumflutti skólahljómsveit Universidad de Costa Rica tónverk hans fyrir strengjasveit, píanó og gítar. Á árunum 2006-08 stundaði hann nám í gítarleik við Hochschule für Musik í Karlsruhe í Þýskalandi hjá Boris Bagger prófessor. Síðan þá hefur Sergio verið nemandi Eugenia Kanthou prófessor í gítarleik við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín.

Benedikt og Sergio tóku þátt í Internationaler Wettbewerb für Kammermusik mit Gitarre í Aschaffenburg í Þýskalandi í mars 2010 og lentu þar í 3. sæti.

Nýjast